17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. fjmrh. þar sem ég hafði rætt um frystingu 500 millj. kr. af því fé sem húsnæðismálakerfið á að fá samkvæmt lánsfjáráætlun á grundvelli þeirra samninga sem væntanlega takast milli lífeyrissjóðakerfisins annars vegar og húsnæðissjóðs hins vegar, vil ég taka það fram af gefnu tilefni þar sem hæstv. ráðherra segir að þessi frysting hafi verið gerð að ósk forsvarsmanns þingflokks Sjálfstfl. — ég vona ég hafi tekið rétt eftir og hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef svo hefur ekki verið — að reynist það rétt, sem ráðherra sagði, að þetta hafi verið gert að ósk forsvarsmanns þingflokks Sjálfstfl. verð ég að leyfa mér að segja að ég kannast ekki við það sem þátttakandi í þingflokki Sjálfstfl. að þessi ósk hafi verið sett fram að höfðu samráði við þingflokkinn. Viðkomandi aðili hefur þá gert það án þess að sú umræða hafi farið fram í þingflokknum, a.m.k. ekki að mér viðstöddum. En það skal tekið fram að sá sem hér talar hefur verið erlendis undanfarnar vikur þannig að það kann að hafa farið fram umræða um það í þingflokknum að honum fjarverandi.

Hafi svo verið breytir það engu um mína afstöðu. Þingflokkurinn bindur ekki mínar skoðanir í þessu efni. Ég tel þetta ranga aðferð. Ég hefði talið eðlilegra og sjálfsagðara að í stað þess að frysta þessa peninga með þessum hætti hefði verið ákveðið að breyta því atriði í samningum aðila vinnumarkaðarins við ríkisvaldið sem sett var í lög á sl. vetri og lýtur að kaupskyldu lífeyrissjóðanna. Í lögum um Húsnæðisstofnun segir að til þess að sjóðfélagar innan lífeyrissjóðanna sem eiga viðskipti við húsnæðismálakerfið eigi 100% rétt skuli sjóðirnir kaupa fyrir 55% af árlegu ráðstöfunarfé. Það hefði verið eðlilegra, þar sem hér var umframfé sem nemur 500 millj., að lækka kaupskylduna. Þá hefði þurft að lækka hana úr 55% í ca. 50%. Við það hefðu lífeyrissjóðirnir fengið betra svigrúm til að lána eða eiga viðskipti við fjárfestingalánasjóðina, en það er, eins og hv. þm. vita, eitt af grundvallaratriðum og meginstefnumörkun lánsfjáráætlunar. Áætlunin byggist á því einmitt að hinn frjálsi markaður eigi sem mest bein viðskipti við þá aðila sem hafa fé til ráðstöfunar. Þannig er það alveg í samræmi við það grundvallaratriði sem hæstv. fjmrh. undirstrikaði áðan í ræðu sinni þar sem segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé að draga úr ríkisafskiptum og auka markaðsáhrif á lánamarkaðnum. Þetta hefði verið spor í þá átt.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, en í sambandi við það sem hæstv. ráðherra sagði um miklar brotalamir á peningamarkaðnum í tengslum við þau viðskipti sem þar fara fram vil ég taka undir þau orð að það sé nauðsynlegt og beri að setja ákveðnar leikreglur um hvernig þessi viðskipti skuli fara fram og einnig um upplýsingaskyldu á þessu sviði. Þetta er sjálfsagt og á auðvitað að gerast með lögum og í reglugerðum. Ég styð eindregið að Alþingi taki það mál upp og taki það föstum tökum á þessu þingi.

Ég verð að segja eftir að hafa heyrt og lesið ummæli ákveðinna þm., að vísu ekki í þessari deild, þar sem var verið að ræða vaxtastefnu og vaxtamál, að sumir hv. þm. ættu að láta af þeim ósið að láta að því liggja að þeir sem fjalla um peninga eða fjármál úti á hinum frjálsa markaði — hvort sem það eru bankamenn, forsvarsmenn lífeyrissjóða eða almenningur sem er að kaupa og selja sín skuldabréf eða yfirleitt fólk sem einhverra hluta vegna hefur teknalega séð eitthvað meira aflögu en aðrir, og mætti nefna þar ýmsar sérhæfðar stéttir sem alveg eins líka vinna hjá ríkinu, hámenntað fólk í háum stöðum með mikil laun — séu eitthvað óheiðarlegri og óvandaðri en þeir sem fjalla um þessi mál á hv. Alþingi. Hann er nú farinn út úr deildinni hv. þm. sem átti að fá að heyra þessi orð, hann er í annarri deild, en slík afstaða dæmir sig sjálf og er forkastanleg. En ég tek skýrt fram að enginn hv. þm. sem hefur talað hér í dag um þessi mál hefur verið með slíkar aðdróttanir eða talað með þeim hætti og er það þeim til sóma.

Hér hefur verið mjög vönduð og öfgalaus umræða um vandasamt mál, sem eru peninga- og fjármál, og ég vænti þess að við í þessari deild getum átt þátt í því að setja lög og reglur í þessum efnum þannig að allir hafi sóma af.