18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

53. mál, umboðsmaður barna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þetta er hið mætasta mál sem er á dagskrá og vel að Alþingi ræði um stöðu barna í samfélaginu.

Það munu vera fordæmi fyrir því að umboðsmaður barna sé starfandi eins og hér er lagt til á landsvísu. Ég hygg að ég muni það rétt frá umræðum um þetta mál í fyrra að þannig er t.d. í Noregi. Engu að síður hefur það leitað mjög á minn hug hvort þetta verkefni sé ekki eitt af því sem eigi heima hjá sveitarstjórnunum í öllum aðalatriðum. Það er nálægð þeirra við börnin sem ýtir á þá skoðun.

Ég hygg að það gæti t.d. orðið um lítil samskipti þeirra barna sem eru í mestri fjarlægð við umboðsmanninn. Segjum að þau séu austur á landi eða fyrir norðan. Hann ætti erfitt með að ná tökum á því viðfangsefni miðað við þá möguleika sem þau hefðu ef þetta væri á sveitarstjórnarstigi. Stundum hef ég hugleitt hvort þetta ætti eitthvert erindi í tengslum við fræðsluskrifstofurnar ef þetta yrði sett upp.

Ég játa það að ég hef ekki fullmótaðar skoðanir í þessu efni, það er langt í land, en ég tel þeim tíma vel varið hjá þinginu sem við ræðum þetta. Það blasir nefnilega við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að þeim börnum fækkar stöðugt hlutfallslega sem eiga heima í skjóli fjölskyldu. Þeim fjölgar sem eru einstæð og það er stöðugt meira og meira rót á okkar samfélagi sem gerir þeim lífið erfiðara á margan hátt. Það fer t.d. ekki á milli mála að hið gífurlega tengslarof sem á sér stað hjá börnum vegna mikilla flutninga, frá einu hverfi til annars í Reykjavík, frá stöðum utan af landi og suður eða öfugt, gerir það að verkum að þó að foreldrar haldi sínum vinum og kunningjum er það oft þannig að börnin tapa sínum bestu vinum, eru alltaf að tapa þeim aftur og aftur, sem skapar þeim óöryggi, og þurfa að byggja upp ný tengsl.

Ég tel þess vegna að sú hugsun sem er á bak við frv. sé af hinu góða en hef spurt sjálfan mig, eins og ég sagði hér áðan, hvort meginverkefni þessara laga sé ekki aftur á móti mjög gott dæmi um það sem ætti að vera á sveitarstjórnarstigi eða þá í verkahring fylkja verði þau stofnuð á Íslandi.