23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

91. mál, jarðgangaáætlun

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umræður um þetta mál, en ég vil nota tækifærið til að taka mjög undir málið sem heild. Ég tek mjög undir það sem hv. síðasti ræðumaður lagði til í þessu máli. Ég held nefnilega að þm. almennt, kannski ekki þjóðin heldur, geri sér ekki grein fyrir hve samgöngumálin eru stór þáttur í þjóðlífinu, ég tala nú ekki um á þeim svæðum sem menn hafa hér nefnt, Mið-Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum. Ég er þeirrar skoðunar að það vanti kannski pólitískt þrek til að taka ákvörðun um þessa hluti.

Ég fullyrði það a.m.k. að undangengnar margar kosningar hafa á Vestfjörðum snúist um samgöngumálin númer eitt, samgöngu- og byggðamál. Þetta tvennt verður ekki sundur skilið. Þetta fer saman. Byggð verður ekki við haldið öðruvísi en samgöngurnar séu í lagi. Lítið hefur þokast í þessum efnum. Þó skal það ekki vanmetið sem gert hefur verið, en það nægir lítt. Og ég fullyrði að ef ekki verður þegar horfið frá þeirri stefnu sem hefur verið uppi verður ekki ýkjalangt í að byggðir á Vestfjörðum grisjist miklu frekar hér eftir en hingað til. Og ef menn ekki vilja taka á þessu máli á pólitískan hátt eiga menn líka að þora að segja það. Þeir eiga þá að þora að segja að það séu ekki til peningar í þennan þátt. Ég hef ekki orðið var við að stjórnvöld hafi vílað fyrir sér að taka tugi milljarða til láns til raforkuframkvæmda víðs vegar. Og ég fullyrði, hversu mikið sem menn meta raforkugildið, að samgönguþátturinn, samgöngurnar, er ekki minna virði, að koma því í lag.

Það hefði vissulega verið ánægjulegt að hafa þó ekki væri nema einn hæstv. ráðherra, helst að þeir væru tveir, bæði hæstv. samgrh. og fjmrh., til að heyra hljóð í mönnum, hvað menn hyggjast fyrir, þeir sem nú ráða ferðinni í þessum efnum. Ég held, hversu góð sem þessi till. er og þarft að marka stefnu strax, að það sé full þörf á því nú þegar að ráðstafa fjármagni til þessara framkvæmda. Það er þannig komið á Vestfjörðum að það þarf a.m.k. 30 millj. kr. fjárveitingu fyrir næsta ár til að vinna að málinu áfram. Slíka ákvörðun á auðvitað að taka nú. Ef menn geta ekki tekið slíka ákvörðun meina menn ekkert með þessu byggðatali. Ég hefði þess vegna viljað sjá framan í þá hæstv. ráðherra báða, samgrh. og fjmrh., því að trúlega fara fyrst og fremst ákvarðanatökurnar um hendur þeirra.

Ég fullyrði að það er löngu tímabært að taka ákvörðun eins og hér er lagt til að gert verði. Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að gera það. Ég tek líka undir að öllu því fjármagni sem tekið er af umferðinni sé skilað til hennar aftur. En þetta á nánast við um allar ríkisstjórnir, líka ríkisstjórnina sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sat í. En þetta á ekki að vera svona. Menn eiga að hafa sömu skoðun um sama mál bæði innan og utan ríkisstjórnar. En þess vegna er nú komið sem komið er að menn tala oft tveim tungum í þessum sem og öðrum efnum. Í þessu vantar miklu meiri áherslu en verið hefur. Og ég tek mjög undir það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði. Menn tala um að arðsemin sé ekki nógu góð í þætti samgöngumála. Þessu er haldið fram við okkur af þeim spekingum mörgum hverjum sem um málin fjalla, þykjast þekkja og þykjast vita en vita þó ósköp lítið þegar á reynir.

Ég hygg að það sé ein mesta arðsemin fólgin í úrbótum í samgöngumálum á þeim svæðum sem hér hefur verið um rætt. Ég styð því þessa tillögu. En ég vil ganga lengra. Ég vil að fjárveitingavaldið taki þá ákvörðun að leggja fé í þetta strax þannig að menn sjái að ekki sé aðeins verið að tala um málið, menn séu líka að meina það sem þeir segja og ætli að gera alvöru úr því.