23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

91. mál, jarðgangaáætlun

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki að þessari umræðu ljúki svo að ég þakki ekki þær undirtektir sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Fyrir utan meðflm. minn, sem hér talaði, vil ég þakka hv. 6. þm. Suðurl., Óla Þ. Guðbjartssyni, fyrir hans eindregnu undirtektir í þessu máli og hv. þm. Karvel Pálmasyni. Ég hefði gjarnan kosið að heyra í fleiri stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar um þetta mál hér við umræðuna og segi það kannski með einhverjum fyrirvara þegar ég tala um stuðningsmenn ríkisstjórnar. Ég sé að hv. síðasti ræðumaður kinkar kolli.

Auðvitað skiptir miklu hvaða viðhorf er ríkjandi hjá stjórnarliðinu í landinu hverju sinni til mála sem þessara, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að í sínu máli. Það er vissulega ekki góður svipur á því að þegar rædd eru mál af þessu tagi skuli ekki vera einn einasti ráðherra úr ríkisstjórn landsins í sæti sínu. Ég er ekki að gera kröfu til þess að þeir séu hér vegna tiltekinna mála, en það er sannarlega heldur snautlegt að ekki einn einasti ráðherra úr ríkisstjórninni skuli sjá ástæðu til að sitja undir umræðum í Sþ. Ég hef að vísu séð einn á flökti í hliðarherbergjum og hann birtist nú í gættinni. Ég vænti þess og tel fullvíst að hann beri góðan hug til þessa máls, en hann telur kannski að hann eigi að horfa til annarra þátta fremur en samgöngumálanna. En auðvitað reynir á ríkisstjórn í sambandi við mál af þessu tagi þó að við séum að leita eftir því hér að þingviljinn komi í ljós. Það er það sem um er beðið, stuðningur þingsins við þetta mál til að þrýsta á framkvæmdarvaldið. Ég vona að þessu þingi ljúki ekki svo að ekki liggi fyrir stefnumörkun, langtímaáætlun um jarðgangagerð þannig að menn geti horft til þessa þýðingarmikla þáttar í ljósi stefnumörkunar af hálfu þingsins.