15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. hefur nú flutt hér alllangt mál. Mér taldist svo til að hann hafi í ræðu sinni farið fjórum eða fimm sinnum yfir öll efnisatriði ræðunnar, flutt sömu ræðuna í einni lotu fjórum eða fimm sinnum. Hann situr hér nú sem varaþm. hv. 5. þm. Reykn. í aðdraganda að landsfundi Alþb. og má vera að ræðan hafi verið flutt með þessum hætti af því tilefni.

Ég er eiginlega þeirrar skoðunar, og komst á þá skoðun meðan hv. þm. var að tala, að það hefði verið sanngjarnt af þingflokki Alþb. að kalla líka til gömlu skólasystur mína, hana Sigríði Stefánsdóttur, norðan frá Akureyri og leyfa henni að setjast inn á þing og nota eins og helminginn af ræðutíma hv. þm. þannig að þingheimur fengi að kynnast málflutningi tveggja frambjóðenda Alþb. til formannskjörs.

Það fer hv. þm. illa að reyna að búa til reyfara hér á hinu háa Alþingi um framgang þingmála, um frásögn af blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar og framlagningu þskj. Hann er um margt atgervismaður, en það lætur honum ekki að búa til reyfarasögur.

Ríkisstjórnin hefur með mjög skýrum hætti lagt fram stefnu sína og starfsáætlun. Ríkisstjórnin lagði fyrir þetta þing í upphafi fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun með skýrri stefnumörkun. Við Íslendingar höfum búið við hagstæð skilyrði að undanförnu. Það hefur verið vöxtur í íslensku efnahagslífi og við höfum búið hér við góðar aðstæður og góð lífskjör. Hitt er satt og rétt að á síðustu mánuðum hefur sigið á ógæfuhlið að því er varðar verðlagsþróun og viðskiptajöfnuð við útlönd. Verðbólga hefur vaxið meir en ráð var fyrir gert og halli á viðskiptum við útlönd farið vaxandi þrátt fyrir að öðru leyti mjög hagstæð skilyrði í íslenskum þjóðarbúskap.

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum og ákvað fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum var við það miðað að hallinn á viðskiptum við útlönd yrði ekki miklu meiri en 4 milljarðar á næsta ári. Nú þegar dró að upphafi þings kom í ljós að horfur um viðskiptaþróun á næsta ári væru þær að viðskiptahallinn gæti orðið, ef ekkert yrði að gert, 6–8 milljarðar kr. Og það var augljóst að ríkisstjórn, sem ætlar sér að koma í veg fyrir að verðbólga vaxi á nýjan leik, varð að grípa í taumana og það var gert þegar í stað með mjög markvissum og skýrum hætti. Það var ákveðið að ná þegar í stað niður halla á fjarlögum ríkisins og það var ætlan ríkisstjórnarinnar að ná hallanum niður í áföngum á þremur árum. En vegna nýrra aðstæðna, vegna nýrra upplýsinga um horfur á næsta ári þótti nauðsynlegt að stíga fastar á bremsurnar en áður var ráð fyrir gert. Það voru teknar ákvarðanir til þess að tryggja að þessu markmiði yrði náð með því að draga meira úr útgjöldum en áður var ráðgert og auka tekjur. Hvort tveggja þurfti til að koma.

Jafnframt var tekin sú ákvörðun að halda fast og ákveðið við þá fastgengisstefnu sem hefur verið og er og verður grundvöllur að efnahagsstefnu stjórnarinnar. Til þess að treysta þá stefnu í sessi og draga úr viðskiptahalla var nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða í ríkisfjármálum og jafnframt að grípa til aðgerða í peningamálum til þess að auka aðhald, opna möguleika til frekari sparnaðar og gera mönnum kleift að leggja peninga inn á gengisbundna reikninga.

Ráðstafanirnar í peningamálum eru í því fólgnar að bönkum og sparisjóðum verður heimilað að bjóða gengisbundna innlánsreikninga. Einstaklingum og fyrirtækjum verður heimilað að eignast erlend verðbréf, heimildir íslenskra fyrirtækja til að fjárfesta í atvinnurekstri erlendis og styrkja þannig viðskiptastöðu sína verða rýmkaðar og ríkissjóður mun bjóða gengisbundin spariskírteini. Hér er verið að opna fjölbreyttari kosti til sparnaðar. Hér er verið að gera ráðstafanir til þess að örva sparnað.

Auðvitað er það svo að menn hafa spurt sjálfa sig: Stenst fastgengisstefnan þegar þannig stendur á í íslensku þjóðfélagi eins og raun ber vitni? Er þetta mögulegt? Getur þetta tekist? Við höfum með þessum ráðstöfunum stigið skref til þess að svo megi verða og tryggt að svo megi verða ef annað gengur eftir. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því öll að það kunna að vera uppi efasemdir. En með þessu eru opnaðir möguleikar fyrir þá sem kunna að efast til þess að leggja sparifé sitt inn á gengisbundna reikninga fremur en að verja því til innkaupa og eyðslu.

Í þessum ráðstöfunum, eins og greint hefur verið frá, verður einnig staðið þannig að verki að spariskírteini ríkissjóðs til lengri tíma verða boðin fram með kjörum sem eru í samræmi við markaðsaðstæður. Þetta er mikilvægt m.a. til þess að dreifa innlausnarbyrði ríkissjóðs á lengri tíma en einungis getur orðið með sölu á spariskírteinum til tveggja ára. Það verður jafnframt unnið að því að endurskoða vexti á ríkisvíxlum og bjóða þá fleiri aðilum og til lengri tíma en verið hefur. Allt stuðlar þetta að því að örva sparnað og auka tiltrú á þá grundvallarstefnu sem hér hefur verið lögð. Enn fremur verður unnið að því að gera mönnum kleift að spara með kaupum á hlutabréfum þannig að slíkur sparnaður verði jafnsettur öðrum sparnaði í þjóðfélaginu. Þetta er mikilvægt stefnuatriði.

Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að með þessum ákveðnu og skýru viðbrögðum við nýjum aðstæðum hafi verið mörkuð stefna sem gefur mönnum trú á að gengi krónunnar geti haldist. Með þessu er líka sett almenn umgjörð fyrir þá sem taka mikilvægar efnahagslegar ákvarðanir í þjóðfélaginu. Við þekkjum öll þá sögu. Það þarf ekkert að vera að pukrast með það að sú var tíð að menn tóku mikilvægar efnahagslegar ákvarðanir eins og felast í kjarasamningum í trausti þess að gengi krónunnar yrði fellt eða það yrði látið síga jafnharðan. (SvG: Þegar þú varst í Vinnuveitendasambandinu.) Ég átti aðild að slíkum kjarasamningum meðan slík ríkisstjórn sat sem hafði enga trú á sjálfri sér né gat komið neinu fram til þess að koma hér á festu og öryggi í efnahagslífinu og ég hygg að ýmsir hér hafi tekið þátt í að gera kjarasamninga með þeim hætti. Það var ekkert aðhald að stjórnendum atvinnufyrirtækja þegar gengi krónunnar féll á hverjum einasta degi. Og það var engin von til þess að hægt væri að búa á Íslandi við stöðugt verðlag meðan sá háttur var á hafður. Þess vegna er þetta grundvallaratriði. Þess vegna skiptir það máli að skapa þær aðstæður í íslensku þjóðfélagi að þetta sé hægt. Og það er auðvitað skylda ríkisstjórnar að grípa í taumana ef efasemdir koma upp um það að unnt sé að halda áfram og það hefur nú verið gert.

Þjóðin skilur ekki, sagði hv. málshefjandi. Þjóðin skilur. Þjóðin gerir sér grein fyrir því að þetta var nauðsynlegt. Þjóðin gerir sér grein fyrir því að það þarf að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir verðbólgu. Fólkið í þessu landi vill ekki kalla yfir sig verðbólguskriðu á ný. Það vill ekki upplifa þjóðfélag þar sem verðbólgan er á milli 80 og 150% . Það er þess vegna reiðubúið að fylgja þeim sem þora að gera ráðstafanir sem varða veginn fram á við þannig að verðbólgan hjaðni á ný.

Öll tvímæli hafa verið tekin af um það að ríkisstjórnin ætlar með þessum ráðstöfunum að fylgja eftir fastgengisstefnu. Og þó að hv. málshefjandi beri þá von í brjósti að hann verði kjörinn formaður Alþb. og þessi ríkisstjórn hverfi frá hefur með þessum ráðstöfunum verið þannig staðið að verki að til þess mun ekki þurfa að koma. Það er alveg ljóst jafnvel þó að menn hafi misjafnar skoðanir á núv. ríkisstjórn að ekkert hefur komið fram í umræðum að undanförnu sem bendir til þess að fólk mundi fá meira traust á íslensku krónunni ef hv. málshefjandi fengi tækifæri til þess að setjast í ráðherrastól. Þvert á móti held ég að það sé augljóst að ef þau sjónarmið fengju að ráða sem hann er fulltrúi fyrir væri fyrst hætta á því að gengisfall yrði á íslensku krónunni. Fyrir því höfum við líka sögulega reynslu.

Hv. málshefjandi vék að bréfi forseta Alþýðusambandsins. Þar er því haldið fram að ríkisstjórnin hafi gengið á bak þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru við gerð síðustu kjarasamninga. Hugum aðeins að staðreyndum. Þegar þeir kjarasamningar voru gerðir var að því stefnt að kaupmáttur atvinnutekna gæti vaxið um 7%. Nú eru allar horfur á því að kaupmáttur atvinnutekna vaxi um 16%, meira en tvöfalt það sem ráð var fyrir gert og var þó verið að semja um einhverja mestu kaupmáttaraukningu sem menn hafa samið um og stefnt að með kjarasamningum um langan tíma.

Rifjum líka upp umræðurnar sem fram fóru þegar þessir kjarasamningar voru gerðir. Þá urðu ýmsir til þess að ráðast á forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. Þá voru ýmsir sem tóku til máls í þeim tilgangi að bíta í hælinn á forseta Alþýðusambandsins, kannski vegna innanflokksátaka, það má vera. En það var látið að því liggja að hann og aðrir forustumenn verkalýðsfélaganna, sem að þessum samningum stóðu, hefðu verið að svíkja umbjóðendur sína. Hv. málshefjandi kannast kannski við það. Kannski man hann eftir því að hafa tekið þátt í þeim leik. Staðreyndin er hins vegar sú að með þessum samningum var stefnt að einhverri mestu kaupmáttaraukningu sem við þekkjum í kjarasamningum. Og niðurstaðan, þegar langt er liðið á samningstímabilið, er þessi: kaupmátturinn hefur aukist margfalt umfram það sem að var stefnt. Það er auðvitað þetta sem er kjarni málsins. Ef við byggjum nú við þær aðstæður að kaupmátturinn væri minni en að var stefnt með kjarasamningum gætum við rætt þetta á öðrum forsendum. Þá gæti verið tilefni til að skrifa bréf af þessu tagi og hefja upp raust sína hér a hinu háa Alþingi. En það er ekki svo.

Þegar þannig stendur á að útgjöld þjóðarinnar eru meiri en tekjurnar verða menn að gera ráðstafanir til þess að jafna metin á ný. Og það hafa verið stigin stór skref í þá veru með þeim ráðstöfunum sem nú hafa verið gerðar. Þær fela ekki í sér neina brigð við kjarasamningana frá sl. vetri. Eftir sem áður er kaupmátturinn meiri.

Nú horfum við fram til þess að á næsta ári verður tæpast um hagvöxt að ræða á Íslandi eftir þann mikla hagvöxt sem við höfum haft á tveimur til þremur undanförnum árum. Við verðum að aðlaga okkur að þessum aðstæðum. Það er verðugt keppikefli við þessar aðstæður að freista þess að verja það góða lífskjarastig sem við búum nú við og það sem nú hefur verið gert leggur grundvöll að því að þetta verði unnt og setur mönnum um leið umgjörð til þess að takast á við það verkefni.

Hv. málshefjandi vék einnig að fjárlagafrv. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. svari í einstökum atriðum því sem ræðumaður vék að í því efni að svo miklu leyti sem þar var um málefnalegar athugasemdir að ræða. En varðandi stöðu þessa frv. er alveg ljóst að það er lagt fram af ríkisstjórninni með venjulegum hætti. Það fer til meðferðar hér í þinginu svo sem venja er til og verður tekið til umræðu og umfjöllunar í fjvn. Það þekkjum við að þar taka frumvörpin jafnan einhverjum breytingum. Að því er varðar þann fyrirvara sem gerður hefur verið að umtalsefni lýtur hann ekki að því að einstakir flokkar stjórnarinnar standi ekki að frv. Hann lýtur að afmörkuðu atriði þar sem sérstakri nefnd þm. úr stjórnarflokkunum hefur verið falið að finna leið til þess að samstaða geti tekist um að ná því markmiði sem í fjárlagatillögunum felst. Því er ástæðulaust að vera að gera því skóna að þetta frv. liggi hér fyrir með neinum öðrum hætti en venja er til.