24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

42. mál, áfengislög

Ingi Björn Albertsson:

Hæstvirtur forseti. Ég var að enda við að falla frá orðinu en það er allt í lagi að koma upp engu að síður.

Út af orðum hv. 4. þm. Norðurl. e. vildi ég gjarnan fá að fara í gegnum ræðuna hans og bið menn að afsaka ef þetta er eitthvað sundurslitið.

Hann byrjaði á því að vitna til Finnlands þar sem þeir hafi víst slæma reynslu af þessu og séu núna að undirbúa það jafnvel að banna bjórinn að nýju. Ég get kinnroðalaust sagt ef sú verður reyndin hér eftir tíu ár að þetta sé sá harmleikur sem mótmælendur hafa verið að lýsa er ég alveg tilbúinn til að skoða slíka tillögu. Ekki skal standa á mér.

Hann talar um að í grg. komi fram að einn tilgangur frv. sé að draga úr neyslu áfengis. Ég hef hvergi borið á móti því að þetta muni auka drykkju. Ég hef þvert á móti sagt í mínum ræðum að ég telji að þetta muni auka drykkju, en ég sé ekki jafnsannfærður um að það auki vandamáladrykkju. Það er tvennt ólíkt.

Um grg. í heild sinni verð ég að segja það, því það er mikið vitnað í hana, að ég tók ekki þátt í að barna hana, en ég styð bjórinn og ég styð þetta frv. til laga engu að síður. Það er meginmálið fyrir mig og fyrir því hef ég leitt rök, m.a. þau hvað mikið misrétti er í þjóðfélaginu gagnvart þessari tegund áfengis og einnig því að það er mikið af bjór í landinu.

Hv. þm. kom inn á styrkleikaflokk. Í 3. gr. frv. er ætlast til þess að dómsmrh. setji reglugerð um sölu áfengs öls og vína samkvæmt þessum kafla. Ég hef gengið út frá því að hérna sé um að ræða það sem kallað er yfirleitt „export“-öl erlendis sem er 5% að styrkleika. Ég geri ekki ráð fyrir því að flm. séu að leggja fram frv. um sterkari bjór.

Hann kemur inn á breytingu á útsöluformi. Það er nú þannig útsöluformið í dag að áfengisverslunin ræður ekki einu sinni við að hafa það áfengi sem til sölu er í landinu í búðum sínum, hvað þá bjór. Þó að ekki væri bjór þyrfti hvort sem er að laga það. Bjórinn yrði sjálfsagt seldur í kassatali og tekur sitt pláss. Þá verður að gera ráðstafanir varðandi það.

Hv. þm. kom inn á „pöbba“. Það er hvergi nokkurs staðar talað um „pöbba“. Það er hins vegar gert í málflutningi andstæðinga. Þeir lýsa því nánast svo að þetta sé úti í næstu matvöruverslun sem er alrangt og menn vita vel. Hér er verið að tala um að selja ölið í Áfengisverslun ríkisins eins og annað áfengi. Það er ekkert annað. Og það er nákvæmlega jafnerfitt fyrir unglinga að ná í bjórinn inn í áfengisverslun eins og vínið. Þannig er alls ekki verið að leggja það til og þyrfti að gera miklu meiri breytingar á lögum til að svo yrði og mun ég ekki standa fyrir því. Ég get sagt það.

Spurningin er hins vegar sú: Hvernig er lögum framfylgt í þessu landi? Hvað gerir lögreglan þegar hún horfir upp á unglingana hérna með brennivínsflösku í hendi? Hún gerir nákvæmlega ekki neitt. Hún hirðir þá loksins upp þegar þeir liggja „steindauðir“ einhvers staðar.

Það er talað um að áfengismagn skipti ekki máli, hvort það er 1% eða 5%. Hér er leyfður innfluttur bjór upp að 2,25%. Af hverju er hann leyfður? Af hverju ekki 3%, af hverju ekki 4%, af hverju ekki 5%?

Ég sýndi fram á um daginn að eina áfengið í landinu sem börn og unglingar geta keypt er í formi líkjöra og koníaks. Ég sýndi það hér á fundinum og gaf meira að segja nokkrum að smakka. Það er þrælsterkt áfengi. Það er eina áfengið sem börn og unglingar geta keypt úti í búð. Það eru hrein og bein brot á íslenskum lögum. En það er ekkert gert við því frekar en við unglingana með brennivínið hérna úti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Ég fagna því ef ég er í raun síðastur á mælendaskrá. Það þýðir að þetta kemst þá til nefndar.