25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

126. mál, mat á sláturafurðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. sem liggur fyrir og er staðfesting á bráðabirgðalögum er náttúrlega sjálfsagt mál. Ég kveð mér hljóðs vegna þeirrar skýrslu sem hæstv. landbrh. gat um sem er verk nefndar sem ráðherra skipaði. Þessi skýrsla er kannski dæmi um það hvernig útkoman getur verið þegar skrifstofumenn í Reykjavík eru látnir fjalla um mál og þekkja hvorki aðstæður eða annað. Ég harma það að það skyldu ekki vera menn sem hafa þekkingu á þessum málum sem sátu í nefndinni því að a.m.k. í sumum atriðum er hún að mínum dómi fráleit. Ég tek sem dæmi t.d. norðausturhornið þar sem ætlast er til að bændur í Vopnafirði keyri með sitt fé til Kópaskers. Það er yfir 200 km leið, mjög leiðinlegur vegur mikið af leiðinni. Ég held það sé ekki einn einasti metri t.d. af bundnu slitlagi og sumt er yfir heiði að fara og hálsa. Það fer auðvitað eftir atvikum hvort þetta er bara framkvæmanlegt. Og mér kemur það ákaflega á óvart ef þessir aðilar gangast undir slíkt. Þetta hefði verið mikið betur staðsett t.d. á Þórshöfn. Hitt er annað mál að þar er ekki gott hús, það viðurkenni ég. En að ætla sér að fara með sláturfé á þriðja hundrað kílómetra vegalengd yfir þessa vegi finnst mér a.m.k. algjörlega fráleit. Það er allt annað mál þar sem vegir eru komnir með bundið slitlag, kannski alla leiðina. Það mætti vera helmingi lengri leið að mínum dómi en á hinum stöðunum.

Ég verð að segja það líka í sambandi við slátrun við Eyjafjörð að það á ekkert sláturhús að vera þar og á að fara með féð frá byggðum Eyjafjarðar, allt frá Ólafsfirði og dölunum, annaðhvort til Skagafjarðar eða Húsavíkur, en aðalmarkaðurinn á Norðurlandi er einmitt Eyjafjarðarsvæðið. Vegalengdirnar eru aðrar. Þær eru miklu minni þrátt fyrir allt. Þær eru kannski ekki mikið minni frá Ólafsfirði en samt eru þær styttri og vegirnir allt aðrir. En að ætla sér að keyra fénu frá Eyjafjarðarsvæðinu og svo afurðunum til baka — ég held að það verði erfitt að sætta menn við það. Ég tek þessi dæmi vegna þess að ég þekki þau best og af því að þetta mál er hér til umræðu langar mig bara að vekja athygli á því og skora á hv. landbn. að taka þessi mál til umfjöllunar og a.m.k. taka ekki þessa skýrslu nefndarinnar sem plagg sem væri hægt að fara alveg eftir. Ég held að það þurfi að endurskoða þau vinnubrögð öll. Hitt er annað mála að það þarf auðvitað að fækka sláturhúsum eins og komið er, en það verður að gera það af meiri þekkingu og meira viti en mér sýnist þetta nefndarplagg hafa að geyma.