15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þetta er orðin alllöng umræða um efnahagsmál og það hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni að það hafi ekki verið ætlun ríkisstjórnarinnar að ræða þessi mál á Alþingi og þau séu eingöngu rædd hér vegna þess að hv. 5. þm. Reykn. hafi kvatt sér hljóðs utan dagskrár. Það er nú svo að fjárlagafrv. hefur verið lagt fram og það hafa verið lögð fram ýmis frv. á Alþingi og á eftir að leggja fram mörg önnur og það er að sjálfsögðu á þeim vettvangi sem á að ræða þessi mái. Það stendur einnig til að ræða stefnuræðu forsrh. og það er ekki endilega víst að nauðsynlegt sé að ræða þessi mál utan dagskrár. En það var athyglisvert sem formaður Alþb. sagði hér, hv. þm. Svavar Gestsson, sem minnti menn á að hér væri enn lýðræði, en sagði að ríkisstjórnarflokkarnir skyldu átta sig á því að þeir kæmu engu í gegn á Alþingi nema í eðlilegu samstarfi við stjórnarandstöðuna. Hvað er maðurinn að segja? Það er verið að hefja hér þingstörf og ég veit ekki annað en það hafi verið hér eðlilegt samstarf og umræður leyfðar af hæstv. forseta eins og hann ávallt gerir, en formaður Alþb. kemur hér og segir: Þið skuluð átta ykkur á því að þó að hér starfi lýðræðislegur meiri hluti getur hann ekki komið neinu fram nema í eðlilegu samstarfi við mig.

Mér þótti þetta afar merkileg yfirlýsing og mér finnst það ekki bera vott um mikla lýðræðisvitund. Það hefur hins vegar ýmislegt komið fram hjá stjórnarandstöðunni sem bendir til þess að ríkisstjórnin sé á réttri braut. Það kom t.d. fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni þegar hann sagði: „Við ætlum ekki að tapa lánstrausti.“ Þetta er mikilvægt markmið og menn mættu gjarnan hafa það markmið að leiðarljósi. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að Íslendingar hafi lánstraust erlendis og þeir hafa haft það fram að þessu. Ef við missum traustið á sjálfum okkur er náttúrlega alveg ljóst að við missum lánstraust erlendis og þess vegna verður lýðræðislegur meiri hluti á hverjum tíma að hafa manndóm í sér til að taka þannig á málum að við missum ekki þetta lánstraust.

Hv. þm. og formaður Alþb. Svavar Gestsson sagði jafnframt að það væri samstaða um það hér á Alþingi að halda genginu föstu. Það væri samstaða um fastgengisstefnuna, sagði hann. Hann sagði að það væri samstaða um andstöðu við verðbólgu.

Þetta voru mikilvægar yfirlýsingar af hans hálfu. (ÓRG: Gleymdu ekki Guðmundi G. Þórarinssyni.) Guðmundur G. Þórarinsson á eftir að tala hér og mun áreiðanlega gera grein fyrir sínum skoðunum, hv. 5. þm. Reykn. Ég held að það sé algjör óþarfi að þú gerir það fyrir hann. Ég hef hingað til þekkt Guðmund G. Þórarinsson þannig að hann sé einfær um það og þú þurfir ekki að gera það í frammíköllum hér á Alþingi og ætti að vera nóg komið af því og væntanlega mun hæstv. forseti áminna þig fljótt um það.

En hvað um það. Hv. 5. þm. Reykn. kom í ræðustól og byrjaði ræðu sína þannig: Stefnan er ekki skýr. Það er ekkert skýrt' í stefnu ríkisstjórnarinnar og ég veit ekkert um hvað hún snýst. Og eyddi í það heilum klukkutíma að útskýra það. En auðvitað er stefnan mjög skýr og viðfangsefnið var mjög skýrt sem menn stóðu frammi fyrir og hafa staðið frammi fyrir. Það stóð um það: Ætluðu menn að breyta genginu eða fara í aðgerðir sem treystu gengið sem mest í sessi? Það má sjálfsagt deila um það lengi hvern kost eigi að velja í þeim efnum, en það er alveg rétt, sem hann sagði hér, að ríkisstjórnin byggir tilveru sína á því, eins og hann sagði, og hún var stofnuð á þeim grundvelli að genginu yrði haldið föstu. Hitt er svo annað mál, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., að ríkisstjórnin er ekkert ein um að viðhalda föstu gengi hér. Meira að segja stjórnarandstaðan skiptir þar miklu máli. Það skiptir máli hvernig stjórnarandstaðan talar og hvað stjórnarandstaðan vill. Sem betur fer skiptir stjórnarandstaðan allmiklu máli þótt hv. 5. þm. Reykn. sé e.t.v. annarrar skoðunar. Ég vænti nú að hann sé það ekki. Aðilar vinnumarkaðarins skipta þar einnig miklu máli. Það er alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki hagað sér þannig undanfarið, ef má nota það orð, eða breytt þannig á undanförnum mánuðum að það skapi mikla tiltrú á því að þeir vilji halda hér föstu gengi. (ÓRG: Á það líka við um verkalýðshreyfinguna?) Það á jafnframt við um verkalýðshreyfinguna, hv. þm. Það á jafnframt við um verkalýðshreyfinguna.

Hins vegar ættu þau skilaboð sem koma fram í þessum ráðstöfunum að vera það skýr að vonandi getum við haldið genginu föstu. Það ætlar ríkisstjórnin sér og ég vænti þess að stjórnarandstaðan ætli sér það líka þótt ég efist um að það sé vilji hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar eins og hann talaði í upphafi, en ég fékk hins vegar trú á því að Alþb. vildi það í reynd þegar ég heyrði hv. þm. og formann Alþb. Svavar Gestsson tala hér því að hann mælti mjög fyrir fastgengisstefnu.

Hér hefur verið dreift þjóðhagsáætlun og það er e.t.v. mikilvægast að átta sig á þeirri þjóðhagsáætlun þegar þessi umræða fer fram. Það er talað um að það séu margir sem eigi erfitt í þessu landi. Það er sjálfsagt rétt. En hvernig hefur gengið á undanförnum árum? Einkaneysla jókst á árinu 1986 um 6,5%, um 12% á þessu ári og menn vænta þess að hún geti aukist um 1/2% á næsta ári, þ.e. að þessari miklu aukningu verði haldið í stað. Samneysla jókst um 6,5% 1986, 4% 1987 og menn vænta þess að hún geti aukist um 2% á næsta ári. Fjárfesting jókst allt of mikið á þessu ári eða um 8%, en menn eru samt að vonast til þess að hún geti aukist um 1,5% á næsta ári. Finnst hv. þm. þetta ekki vera góður rammi og hvað er það sem þeir vilja breyta í þessum ramma? Þessi rammi gerir ráð fyrir því að viðskiptahalli verði 4,4 milljarðar. Vilja hv. þm. að þessi viðskiptahalli verði meiri eða eru þeir tilbúnir að grípa til ráðstafana sem draga enn meir úr einkaneyslu, samneyslu eða fjárfestingu, eða hafa þeir e.t.v. þá trú að þjóðartekjurnar geti orðið enn meiri? Ég leyfi mér að efast um að þær geti orðið enn meiri. Þjóðartekjurnar hafa vaxið mikið vegna góðrar afkomu í sjávarútvegi og mikils afla og það er ekkert vit í því að ætla sér að auka þann afla á næsta ári. Það þarf að draga hann saman og þarf að skapa svigrúm fyrir því að draga hann nokkuð saman. Það er þessi rammi sem skiptir máli og auðvitað má deila um hvort það séu rétt útgjöld í fjárlögunum og hvort þar sé rétt að málum staðið. Þar hefur verið lagt verulega að atvinnuvegunum. Það hefur verið dregið úr framlögum til atvinnuveganna. Það hefur verið ákveðið að leggja skatta á atvinnuvegina. Það hefur verið ákveðið að standa á föstu gengi, sem leggur miklar byrðar á atvinnuvegina, til þess að geta haldið uppi ýmiss konar félagslegri þjónustu.

En hvað er það þá sem eftir stendur í þessari umræðu að því er varðar gagnrýni stjórnarandstöðunnar? Það hefur verið sagt af stjórnarandstöðunni að hún vilji ekki fella gengið, hún vilji treysta stöðu þess. Ég tek mark á því. Það hefur verið sagt af hv. þm. Albert Guðmundssyni að við megum ekki tapa lánstraustinu út á við. Það sem upp úr stendur er umræðan um breytinguna á söluskattinum, þ.e. að á þessu ári eigi að afla 150 millj. og nota síðan 75 millj. af því til að auka niðurgreiðslur og koma til móts við þær álögur, þ.e. nettó 75 millj. kr. Auðvitað skiptir sú fjárhæð ekki meginmáli í þessu dæmi. Það sem skiptir meginmáli er að það stendur til að breyta söluskattskerfinu um næstu áramót, gera söluskattinn almennan þannig að allt sem selt er í einni verslun sé söluskattsskylt. Það hefur komið skýrsla eftir skýrslu frá skattyfirvöldum til alþm. um að þetta verði að gerast ef þeim eigi að takast að hafa almennilegt eftirlit með söluskattinum. Menn taka e.t.v. ekkert mark á þessum skýrslum. Það er þeirra mál. En þetta er þeirra boðskapur sem svarar spurningum alþm. um það hvernig eigi að fara að því að draga úr þessum skattsvikum.

Hins vegar er hægt að mæta þessum auknu álögum á matvörur með niðurgreiðslum, með auknum barnabótum o.s.frv. og það ætlar ríkisstjórnin sér að gera. En það er alltaf sárt þegar breytingar verða. Það er svo með skattamál að það fer ekki alltaf saman, réttlætið og möguleikarnir til undandráttar. Ef menn vilja koma í veg fyrir ýmsa möguleika til undandráttar kann það að koma niður á ýmiss konar réttlæti í skattlagningu. En það réttlæti að menn komist ekki upp með skattsvik gengur þó mun lengra að mínu mati þó ég geri ekki lítið úr hinu réttlætinu.

Það hefur einnig verið mjög gagnrýnt að það standi til að heimila að Íslendingar fái að kaupa verðbréf ríkisins á erlendum vettvangi sem er það sem viðskrh. skýrði frá og er í reynd það eina sem stendur til, a.m.k. nú, og að rýmkaðar verði heimildir íslenskra fyrirtækja til að eignast hlut í erlendum atvinnurekstri. Menn skulu ekki gleyma því að þátttaka Íslendinga í erlendum atvinnurekstri, þ.e. íslensku fyrirtækin í Bandaríkjunum og þátttaka okkar í flugstarfsemi í heiminum, hefur skipt þessa þjóð miklu máli. Og þjóð sem er svo tengd utanríkisviðskiptum sem okkar hlýtur alltaf að vera háð því að geta verið þess umkomin að taka þátt í atvinnulífi erlendis. Við skulum jafnframt átta okkur á því að fjármálalíf heimsins er að færast meir og meir saman hvort sem okkur líkar það betur eða verr, innan Efnahagsbandalagsins og milli heimshluta. Við verðum smátt og smátt, þótt hægt förum, að taka þátt í þeim breytingum, en við þurfum að gera það af mikilli varkárni. En það er barnaskapur að mínu mati að halda að við getum komist af án þess eða lifað hér með öll þau utanríkisviðskipti sem við erum svo háð án þess að taka smátt og smátt þátt í þessu alþjóðlega fjármálalífi þó ég sé ekki að gera það að neinu aðalatriði. Þetta er hins vegar ekki stórt atriði í reynd í þessum ráðstöfunum.

Í þriðja lagi hefur verið gert mikið úr framlögum til landbúnaðarmála hvað varðar ýmsar stofnanir landbúnaðarins. Þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir og þær skipta ekki sköpum í þessu sambandi. Hins vegar er um það samstaða að farið verði ofan í þennan rekstur og athugað hvort ekki megi draga úr honum á ýmsum sviðum eða breyta honum. Það er það sem þessi nefnd ætlar að gera. Það er mikill samdráttur í landbúnaðinum og stofnanir hans, tilraunastarfsemi og ýmislegt fleira, eru að sjálfsögðu ekki heilagt mál í því sambandi. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að líta til þeirra mála eins og ýmissa annarra. Og ég minni á að það hefur jafnframt verið gert í iðnaði og sjávarútvegi. Þar hefur verið farið og stendur til að fara mjög „krítískt“ ofan í nokkrar stofnanir og endurskoða starfsemi þeirra. Ég held að það sé hollt fyrir alla og allar stofnanir að svo sé gert.

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hafi leitt í ljós að ríkisstjórnin er á réttri leið. Auðvitað hefur hún ekki leyst öll vandamál, langt í frá. Ég tel að stjórnarandstaðan hafi með málflutningi sínum staðfest það hér. Hún hefur a.m.k. ekki bent á neina aðra leið sem mætti fara og það er kannski besta staðfestingin á því að hér er farið rétt af stað.

Hitt er svo annað mál að okkar bíða margvísleg verkefni og margvíslegir erfiðleikar. Og við skulum vera minnug þess að það er mun erfiðara að eiga við mál þegar ekki er aukning tekna en þegar aukningin er mikil eins og var á sl. tveimur árum. Það er að sjálfsögðu mun auðveldara. Það reynir fyrst á Alþingi og ríkisstjórn þegar samdráttur verður og tekjur minnka. Þá þurfa menn oft að taka sárar ákvarðanir, en þær verða samt oft til þess að mönnum gengur betur í framhaldinu.