26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

113. mál, tryggingar farþega

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 117 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh., með leyfi forseta:

„1. Hvernig er háttað tryggingum, þ.e. slysa-, örorku- og dánartryggingum, hjá þeim sem kaupa sér far með flugvélum, bifreiðum, skipum?

2. Stendur til að samræma þessar tryggingar?" Ástæðan fyrir því að ég ber fram þessa fsp. er blaðaviðtal sem ég sá við ungan mann í Morgunblaðinu fyrir nokkru. Þessi ungi maður hafði lent í flugslysi fyrir nokkru og lýsti vandræðum sínum í því blaðaviðtali, þá ekki síst afleiðingum slyssins, sem ég ætla ekki að ræða hér, en auk þess hinum ýmsu vandkvæðum sem hann hafði lent í hvað snertir tryggingarfélög og lög um tryggingar farþega.

Það kemur í ljós þegar maður fer að kynna sér þessi mál að það er alls ekki sama hvort maður verður fyrir því óláni að lenda í slysi í bíl, flugvél eða skipi. Menn geta verið tryggðir fyrir allt að 20 millj. kr. niður í tæpar 500 þús. kr., allt eftir því í hvaða farartæki þeir verða fyrir slysi, enda er það svo að maður kaupir sér farseðil og getur þurft að nota öll þessi farartæki til þess að komast til áningarstaðarins og þá er það kannski mikil tilviljun í hverju maður lendir. Það er náttúrlega alvarlegt mál, burtséð frá hinum alvarlegu afleiðingum slysa og líkamlegs tjóns, að menn lendi síðan í verulegum annmörkum og breytingar verði á högum vegna þess að tryggingar eru svona misskiptar.

Það kemur líka í ljós þegar maður fer að kynna sér þetta að jafnvel börn eru ekki tryggð. Í einum lögunum er m.a. tekið fram að börn innan eins árs aldurs teljist ekki farþegar. Ég verð að segja að það kemur mér mjög einkennilega fyrir sjónir. Ég bjó á Ísafirði um tíma og þvældist mikið á milli staða með lítil börn með mér og alltaf þurfti að borga lítils háttar gjald fyrir farþegana, litlu börnin, og mér var sagt að þetta væri tryggingargjaldið. Maður borgaði ekki neitt fargjald þegar maður héldi á farþeganum, einungis tryggingargjald. Sem betur fer kom aldrei neitt fyrir mig eða mína fjölskyldu í þessum ferðalögum, en ég tel að það sé ástæða til að vekja athygli löggjafarsamkomunnar á því hvernig þessum málum er háttað og þess vegna ákvað ég að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að þessi mál verði tekin til gaumgæfilegrar skoðunar og vænti þess að í svari ráðherrans komi fram hvernig hann hyggst taka á þessum málum.