02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv, til l. um breytingu á lögum nr. 45 frá 1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda voru samþykkt á Alþingi fyrr á þessu ári ásamt breytingum á lögum um tekjuskatt einstaklinga sem lögðu grundvöll að upptöku staðgreiðslu tekjuskatta hér á landi. Þegar við afgreiðslu laganna var ljóst að mikið verk væri fyrir höndum við undirbúning þeirra miklu breytinga sem lög þessi boðuðu. M.a. af þeim ástæðum voru á síðasta þingi mótuð þau vinnubrögð að nefnd skipuð fulltrúum þingflokkanna, fjmrn. og hagsmunasamtaka sem aðild áttu að málinu frá upphafi skyldi milli þinga fylgjast með undirbúningi framkvæmdar og gera tillögur um þær breytingar á löggjöfinni sem æskilegar þættu. Nefndin átti jafnframt að meta það á grundvelli nýjustu tiltækra upplýsinga hverjir skattstuðlar þyrftu að vera í hinu nýja kerfi til þess að náð yrði þeim markmiðum varðandi skattlagningu, skattbyrði og skatttekjur sem sett voru þegar málið var flutt á síðasta þingi.

Af ýmsum ástæðum dróst skipan þessarar nefndar. Kom þar m.a. til að skammt var til þingloka þegar lögin voru afgreidd, kosningar í nánd og kosningaundirbúningur hafinn. Að kosningum loknum fór langur tími í stjórnarmyndunarviðræður, en þegar að þeim loknum var óskað eftir tilnefningu í nefnd þessa. Af ýmsum ástæðum leið nokkur tími þar til tilnefningar allra aðila höfðu borist og var komið fram í september þegar nefndin hóf störf.

Hluti af verkefnum nefndarinnar var þess eðlis að ekki var unnt að sinna honum að ráði fyrr en með hausti. Var þar um að ræða þá þætti sem tengdust úrvinnslu skattframtala frá sl. ári. Sú vinna gat ekki hafist fyrr en að lokinni álagningu opinberra gjalda á þessu ári og eftir að skattgögn og tilheyrandi skrár höfðu verið færðar í úrvinnsluhæft ástand sem var ekki fyrr en um mánaðamótin ágúst-september.

Þótt milliþinganefnd væri ekki tekin til starfa hófst undirbúningur að framkvæmd staðgreiðslu í fjmrn. og á vegum þess strax sl. vor. Ráðuneytið fól embætti ríkisskattstjóra að annast tæknilegan undirbúning framkvæmdarinnar og að stýra henni. Hjá því embætti var stofnuð sérstök staðgreiðsludeild og til hennar var ráðið starfsfólk sem unnið hefur að þessum málum síðan. Þegar í apríl sl. var skipuð nefnd til þess að annast samræmingu við undirbúning staðgreiðslunnar. Sú nefnd var skipuð fulltrúum frá fjmrn. og embætti ríkisskattstjóra, frá Ríkisbókhaldi, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Skattstjórafélagi Íslands. Nefnd þessi fylgdist með undirbúningsstarfinu, gerði tillögur um ýmis atriði framkvæmdarinnar og beitti sér fyrir því að þeir aðilar sem málið varðar ynnu saman að undirbúningnum.

Að tillögu þessarar nefndar var ákveðið að greina móttöku staðgreiðslufjár og skil þess til rétthafa nokkuð frá öðrum undirbúningsþáttum og hefur sérstökum starfshópi verið falið a8 undirbúa þann þátt. Í þeim starfshópi eru aðilar frá fjmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga, Gjaldheimtu, Ríkisbókhaldi og embætti innheimtumanns. Þessi starfshópur hefur lagt fram tillögur um nokkur af þeim verkefnum sem honum var falið og vinnur enn að öðru.

Þótt tími milliþinganefndar til að ljúka störfum hafi verið knappur hefur hún unnið mikið og að mínu mati afar gott starf. Nefndin skilaði fyrir alllöngu álitsgerð með ítarlegum upplýsingum og tillögum um breytingar á þeim lögum sem henni var falið að fjalla um. Hluta þessara tillagna hafði nefndin kynnt fjmrh. fyrr á starfstíma sínum og er það frv. sem hér er mælt fyrir fyrst og fremst á þeim byggt.

Eins og sjá má af álitsgerð nefndarinnar sem gefin hefur verið út sérstaklega og dreift til allra þm., álitsgerð um staðgreiðslu skatta frá milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta 15. nóv., hefur nefndin grandskoðað flest þau atriði sem snerta framkvæmd staðgreiðslu og það álagningarkerfi sem hún byggir á. Það er ánægjulegt að samstaða var í nefndinni um öll meginatriði í staðgreiðslukerfinu þó að að sjálfsögðu hafi komið fram skiptar skoðanir um einstök atriði. Tillögur nefndarinnar lúta flestar að því að styrkja og treysta þau lagaákvæði sem samþykkt voru á seinasta þingi, ásamt því að leitast við að gera framkvæmd staðgreiðslunnar sem einfaldasta og hagkvæmasta fyrir gjaldendur sem og fyrir þá sem að framkvæmdinni starfa.

Nefndin leggur fram tvíþættar tillögur. Annars vegar tillögur um breytingu á lögum um staðgreiðslu og hins vegar um breytingar á tekjuskattslögunum. Frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt byggt í stórum dráttum á þeim tillögum hefur verið afgreitt af ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarliða og verður eftir því sem ég best veit lagt fram á hinu háa Alþingi annaðhvort í dag eða snemma á morgun.

Það frv. sem hér liggur fyrir byggir á fyrrnefndum tillögum, þ.e. fyrri þætti tillagna milliþinganefndar um breytingar á lögum um staðgreiðslu. Enn fremur tengjast afgreiðslu þessara mála lagafrv. um gildistöku staðgreiðslulaganna, frv. um húsnæðissparnaðarreikninga, frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og frv. um sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld. Síðastnefndu frv. þrjú flytja þeir ráðherrar sem fara með tilsvarandi málaflokka.

Í frv. því sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst að finna breytingar á framkvæmdaatriðum sem varða staðgreiðslu. Þar sem ítarlega er fjallað um einstakar breytingar í álitsgerð milliþinganefndarinnar sem og í athugasemdum með frv. læt ég nægja að drepa á helstu efnisþætti í stuttu máli.

Í fyrsta lagi fjallar frv. um breytingar sem snerta útgáfu skattkorta. Helstu efnisatriðin eru: Breytt er tímaviðmiðun til útgáfu skattkorta. Lagt er til að Tryggingastofnun ríkisins taki á móti skattkortum fyrir bótaþega þeirrar stofnunar, að gefin verði út sérstök námsmannaskattkort og sérstök kort með uppsöfnuðum afslætti þegar skattþegnar hafa lítt eða ekki stundað launuð störf fyrri hluta árs og rýmkuð eru ákvæði um hvenær færa má persónuafslátt milli hjóna. Breytingar þessar miða að því að gera kerfið þjálla í framkvæmd og að því að draga úr misræmi milli staðgreiðslu og endanlegrar álagningar.

Í annan stað fjallar frv. um skil á staðgreiðslufé. Þar er höfð hliðsjón af áliti gjaldheimtunefndar þannig að tillögur hennar geti komist í framkvæmd án þess að lögum um staðgreiðslu verði breytt. Enn fremur er sett ákvæði um skilatíma að loknu hverju greiðslutímabili og ákvæði þess efnis að sjómannaafsláttur hjá lögskráðum sjómönnum verði dreginn frá staðgreiðslu hjá launagreiðanda í stað þess að vera gerður upp sérstaklega eins og ætlunin var og lögin hljóðuðu upp á sl. vor.

Þá er lagt til að í lögin verði tekið ákvæði um hvar skuli skipta vanskilafé, álagi og sektum í skuldaröð í þrotabúum. Hér er gert ráð fyrir að vanskilafé og álag verði forgangskröfur, enda er um að ræða vörslufé sem dregið hefur verið af launum starfsmanna og haldið er með ólögmætum hætti hjá launagreiðanda. Er ekki talið rétt að aðrir kröfuhafar hagnist vegna ólögmætra athafna skuldara sem yrði ef vanskilafé hefði ekki þann forgang sem hér er lagt til.

Þá er í frv. þessu gerð tillaga um að breyta því ákvæði laganna að sektarúrskurðir verði í höndum ríkisskattstjóra. Í frv. er gerð tillaga um að sektarúrskurðir þessir verði í höndum sérstakrar nefndar en ekki eingöngu á vegum þess aðila sem sér um að stjórna framkvæmd laganna. Með þessu fyrirkomulagi er vonast til að sektarákvörðun geti gengið fljótt fyrir sig og verið með eðlilegum hætti.

Herra forseti. Ég hef hér gert stuttlega grein fyrir meginefni þess frv. sem fyrir liggur og aðdraganda þess. Afgreiðsla frv. og þeirra annarra sem því tengjast er nauðsynleg forsenda þess að náð verði um næstkomandi áramót þeim merka áfanga í skattasögu hér á landi að hafin verði staðgreiðsla skatta.

Við Íslendingar höfum stigið það skref seinna en flestar eða allar grannþjóðir okkar. Hins vegar er einnig á það að líta að samfara staðgreiðslunni tökum við upp skattkerfi sem um flest verður einfaldara í sniðum en þekkist með öðrum þjóðum. Sú staðreynd á að gera okkur kleift að koma á einfaldri skattheimtu, draga úr skriffinnsku og gera skattakerfi okkar skiljanlegt þeim sem við eiga að búa. Slíkir eiginleikar eru jafnframt mikilvægar forsendur þess að skattakerfið sé skilvirkt og að það mismuni þegnum ekki eftir því hvaða aðstöðu þeir hafa til að nýta sér hin ýmsu tilbrigði flókinna skattalaga.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu og legg til að frv. þessu verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.