131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég tek undir árnaðaróskir sem hér hafa verið færðar nýjum umhverfisráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur. Sömuleiðis velfarnaðaróskir til hæstv. forsrh., Halldórs Ásgrímssonar, og Davíðs Oddssonar á nýjum vettvangi.

Nýskipaður forsætisráðherra fær auðvitað málefnalega mótstöðu hjá stjórnarandstöðunni eins og hér hefur þegar verið sýnt í ræðum þingmanna stjórnarandstöðunnar. Hann talaði í ræðu sinni, sem var að mínu mati nokkurs konar stikkorðaflaumur, um tækifærin sem við okkur blasa. Tækifærin sem byggja á frumkvæði fólks og vinnusemi auk trúar okkar á landsins gæði. Hann sagði líka að við sæjum framtíðina og möguleikana sem í henni felast í ólíku ljósi. Vissulega gerum við það. Það er ástæðan fyrir því að við erum ekki öll í Framsóknarflokknum.

Ráðherrann talaði um fjölbreytt atvinnulíf og menntunartækifæri, útrás fyrirtækja og þörfina á að við tileinkuðum okkur nýjungar, frumkvæði og nýjungar. Maðurinn, sem hefur bara eina hugmynd í atvinnumálum landsbyggðarinnar, gamaldags stóriðju. Maðurinn, sem hefur margoft afhjúpað vankunnáttu sína á nýstárlega hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Hversu trúverðug er hans framtíðarsýn?

Þjóðin hefur mótmælt ofuráherslu stjórnvalda á stóriðju. Um þessar mundir mótmæla stúdentar boðuðum hækkunum á skráningargjöldum í opinbera háskóla. Kennarar mótmæla. Náttúruverndarsinnar mótmæla. Öryrkjar mótmæla.

Hvernig er verið að nýta frumkvæði, dug og þor fatlaðra sem eiga ekki lengur neina aðkomu að íslenskum vinnumarkaði? Heyrnarlausir og daufdumbir fá ekki einu sinni lífsnauðsynlega túlkaþjónustu til að sækja um atvinnu. Geðfatlaðir, með sitt öfluga frumkvæði í menntamálum, eiga undir högg að sækja. Hver treystir svo orðum forsætisráðherrans um frumkvæði þjóðarinnar?

Ákvarðanirnar koma að ofan, úr fílabeinsturni valdsmannanna og þeim sem neðar sitja er nauðugur einn kostur og hlýða og taka því sem að þeim er rétt. Það kveður svo rammt að þessum stíl um þessar mundir að það liggur við að opinberir starfsmenn þori ekki lengur að opna munninn af ótta við að styggja valdhafana, ráðstjórnina.

Hvað sýnist þjóðinni um pólitíska valdbeitingu ráðherranna við opinberar mannaráðningar? Sú stjórnsýsla sem við verðum vitni að í þeim efnum er forkastanleg og beinlínis niðurlægjandi að sjá hvernig t.d. jafnréttislög eru þverbrotin aftur og aftur á sama tíma og ríkisstjórnin flaggar nýsamþykktri jafnréttisáætlun og tekur undir og tekur þátt í norrænu jafnréttisátaki.

Ekki gætir nokkurs kinnroða hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Kokhraustir horfa þeir framan í þjóðina og halda því fram að hér ráði hin faglegu sjónarmið ein og sér og ekkert sé athugavert. Er þjóðin sátt við þessa framgöngu? spyr ég. Ég trúi varla öðru en margir nagi sig í handarbökin fyrir að hafa framlengt umboð þessara herra við síðustu kosningar.

Hluti af framtíðarsýn forsætisráðherra er fólginn í skattalækkunum sem gagnast þeim ríku, og þar af leiðandi sérstaklega körlum, því ekki eru konurnar svo fjölmennar í hálaunahópnum.

Hvað varð um samþættingarsjónarmiðin? Hvenær á að byrja að nota þau? Mér er spurn. Kanna ólík áhrif ákvarðana ríkisstjórnar á kynin áður en ákvarðanir eru teknar. Svikin loforð og skelfileg vankunnátta einkenna málflutning þessara herra í málefnum kynjanna. Herrar sem kalla á frumkvæði þjóðarinnar á sama tíma og þeir sýna hugmyndaauðgi hennar fullkomið vantraust eru ekki trúverðugir herrar. Á meðan hámenntaðir og flinkir listamenn úr öllum listgreinum heilla Frakka með íslenskri menningarveislu, skreyttri íslenskri ósnortinni náttúru, eru hinir heimóttalegu og skammsýnu ráðherrar okkar í óðaönn að bjóða menntaðri og vel upplýstri þjóð sinni upp á brennisteinsdíoxíðsspúandi rafskautaverksmiðju sem skilar tæplega 700 kílóum af krabbameinsvaldandi PAH-efnum út í náttúruna árlega og álbræðslur í löngum bunum. Svo þykjast þessir herrar hafa eitthvað að gera við frumkvæði þjóðarinnar. Heyr á endemi.

Hvernig ætlar talsmaður töfralausnanna, Halldór Ásgrímsson t.d., að endurheimta trúverðugleika í atvinnumálum eftir loforðin sem Austfirðingum hafa verið gefin? Hvernig gengur að fjölga störfum á Austurlandi á framkvæmdatíma virkjunar og álvers? Árangur í þeim efnum er vægast sagt dapurlegur. Raunin er sú að stóriðjuframkvæmdirnar eru þegar farnar að valda enn frekari búseturöskun á svæðinu en var fyrir. Fólksflótti frá Austurlandi hefur ekki verið stöðvaður með töfrasprota Halldórs Ásgrímssonar. Ó nei. Í ljós hefur komið að brottfluttir umfram aðflutta á fyrri helmingi ársins á Austurlandi eru 62, 62 fleiri brottfluttir en aðfluttir, og tvö ungmenni sóttu um stóriðjubrautina í Verkmenntaskóla Austurlands í haust. Gleymdist kannski að hlusta á þann fjölda ungmenna á Austurlandi sem sögðust ekki hafa áhuga á því að starfa í álveri? Núna er Kárahnjúkavirkjun í byggingu og unga fólkið fyrir austan er í háskólanámi vítt og breitt. Þó það langaði að snúa heim finnur það hvorki störf sem hæfa menntun þess né fær húsnæði á viðráðanlegu verði. Hvað segir Halldór Ásgrímsson við þetta fólk? Hefði kannski verið ráðlegra að hlusta á rödd þess, leita að frumkvæði þess og gefa gaum að nýjungum í atvinnulífi áður en anað var út í fúafenið og einstæðri náttúru norðan Vatnajökuls var fórnað fyrir orkusölu á útsöluverði til gamaldagsauðhrings sem er alveg sama um unga fólkið fyrir austan?

Góðir áheyrendur. Það er ekki hægt að segja að orð hins nýja forsætisráðherra séu trúverðug eða veki sérstaka bjartsýni. Mættum við biðja um breytta tíma og trúverðugri leiðtoga sem skilja hugtökin fjölbreytni, frumkvæði og nýjungar. — Góðar stundir.