131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:25]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að svara þeim útúrsnúningi sem fram kemur hjá hv. þingmanni. Frítekjumarkið fyrir hátekjuskattinn er nú um 375 þús. kr. Það er rétt sem fram kemur hjá honum að Samfylkingin studdi að hátekjuskatturinn mundi leggjast af í áföngum. En hv. þm. snerist undan því og sneri sér frá því að svara þeirri spurningu sem sett var fram. Úr því að það var staðreynd, úr því að búið var að lögfesta það að hátekjuskatturinn mundi lækka um 2% ... (BJJ: Ertu ekki samþykkur því?) Ég var samþykkur því að hátekjuskatturinn ætti að lækka og falla út á árinu 2006. (BJJ: Þá erum við sammála.) Nei. Við erum ekki sammála, ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson, vegna þess að ég segi: Þeir 5 milljarðar sem verið er að lækka skatta á með því að lækka almennu skattprósentuna um 1%, þeir 5 milljarðar eiga að nýtast því fólki sem neðar er. Við höfum lögfest með hvaða hætti við ætlum að lækka skatta á þá sem hærri tekjurnar hafa. Við gerðum það á síðasta þingi og ég var sammála því. En ég tel að það svigrúm sem við höfum nú, rúmlega 5 milljarðar kr., eigi ekki að nýtast líka í þeim tekjuhópi. Það á að nota þá fjármuni neðar í tekjustiganum. Það getum við gert og það eigum við að gera.

Ein spurning sem stendur kannski eftir eftir þessa umræðu og umræðuna sem verið hefur í fjölmiðlum síðustu daga varðandi fjárlagafrumvarp og skattalækkanir er, eins og hæstv. fjármálaráðherra og ekki síður hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir var að ýja að áðan, að ekki tækist að lækka virðisaukaskattinn af því að Framsóknarflokkurinn væri að þvælast fyrir. Ég vil spyrja hv. þm. Birki J. Jónsson beint: Getur verið að Framsóknarflokkurinn sé að þvælast fyrir því að matarskatturinn verði lækkaður úr 14% í 7%? Getur það verið og ef svo er, af hverju?