131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:51]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. svaraði ekki fyrri spurningunni. Það er að sjálfsögðu ekki mitt mat að erlent vinnuafl sé vont. En hitt að hinn innlendi hluti skuli vera svo miklu minni en ráð var fyrir gert segir sína sögu. Ég tel það ekki gott. Ég tel að það hafi verið eitt af markmiðunum með þessum framkvæmdum að þær skiluðu sem mestum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú án þess að vera þó neitt á móti þeim erlendu einstaklingum sem koma til vinnu.

Þessar hækkanir á komugjöldum eru langt umfram það að vera hluti af uppfærslu á verði. Þetta er bara aukin skattheimta og einmitt það fólk sem oftast þarf að fara og leita sér læknis er jafnframt það fólk sem lægstar tekjur hefur.

Auk þess vil ég líka inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til skólagjalda við Háskóla Íslands. Við komum bæði utan af landi og við vitum að það er ærinn kostnaður að senda unglinga utan af landi og bera þann kostnað, húsnæðiskostnað, dvalarkostnað og allan þann kostnað sem fylgir því. Þetta er líka fyrir þá sem hér búa. Er á þetta bætandi og er það í samræmi við þá menntastefnu sem þingmaðurinn vill fylgja að einmitt þetta fólk skuli vera skattlagt og standa undir menntun sem a.m.k. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum talið að ætti að vera á ábyrgð þjóðarinnar og það væri markmið hennar að allir fengju sem besta menntun og jafnasta? Styður þingmaðurinn þá stefnu að hækkun skólagjalda við Háskóla Íslands sé forgangsmál?