131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:13]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Þingheimur og þjóð verða að geta gert ákveðnar kröfur til hæstv. fjármálaráðherra. Þær kröfur uppfyllir núverandi fjármálaráðherra alls ekki. Fjármálastjórn ríkisins á hans vakt hefur verið með ólíkindum. Áætlanir standast ekkert og það virðist vera nákvæmlega ekkert sameiginlegt með þeirri mynd sem hæstv. fjármálaráðherra dregur upp á hverju ári og síðan þeim raunveruleika sem blasir við þjóðinni þegar reikningarnir eru loksins gerðir upp. Ár eftir ár stenst ekki orð af því sem hæstv. fjármálaráðherra segist ætla að gera í ríkisfjármálum. Og tölurnar tala einfaldlega sínu máli.

Ef við skoðum hinn meinta afgang sem er iðulega kynntur fyrir þjóðinni á hverju einasta hausti annars vegar og síðan hins vegar niðurstöðuna þegar reikningarnir eru gerðir upp kemur margt forvitnilegt í ljós.

Árið 2000 gerði fjárlagafrumvarp ráðherrans ráð fyrir 15 milljarða kr. afgangi. Fjárlögin sem síðan voru samþykkt um jólin gerðu ráð fyrir 16,7 milljarða kr. afgangi. Hver varð niðurstaðan þegar reikningurinn var gerður upp? Rúmir 4 milljarðar í mínus.

Árið 2001 gerðu bæði fjárlagafrumvarp og fjárlögin ráð fyrir u.þ.b. 30 milljarða kr. afgangi á ríkissjóði. Niðurstaðan varð hins vegar einungis 8 milljarða kr. afgangur.

Árið 2002 gerðu fjárlagafrumvarpið og fjárlögin ráð fyrir u.þ.b. 18 milljarða kr. afgangi. Hver var niðurstaðan? Halli upp á 8 milljarða. Síðan í fyrra gerðu fjárlagafrumvarp og fjárlög ráð fyrir u.þ.b. 11 milljarða kr. afgangi. Hver var niðurstaðan? Halli upp á 6 milljarða. Þetta var áætlanagerð hæstv. fjármálaráðherra hvað varðar afganginn sem nánast undantekningarlaust varð að halla í hans meðförum. Að meðaltali munaði um 21 milljarði kr. á ári milli afgangs fjárlagafrumvarps og ríkisreiknings.

Svipaða sögu er að segja um ríkisútgjöldin. Þau standast ekki heldur. Ef við skoðum árin 2000–2003 þá munaði að meðaltali u.þ.b. 28,3 milljörðum kr. á milli gjalda fjárlagafrumvarpsins og síðan þeim raunveruleika sem blasti við í ríkisreikningi.

Ef við skoðum síðan ríkisreikning 2003, þá sjáum við að útgjöld ríkisins umfram fjárlagafrumvarpsins jukust um rúmlega 3 millj. kr. á hverri einustu klukkustund. En hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde telur sig hins vegar hafa svör við þessu öllu saman, á þessum 20 milljarða kr. sveiflum, hvort sem litið er á ríkisútgjöldin eða afgang ríkissjóðsins. Hann vill einfaldlega taka út óheppilega liði og fínpússa útkomuna aðeins. Hann fullyrðir að fjárlög og ríkisreikningur séu ekki samanburðarhæf.

Hæstv. fjármálaráðherra bendir á fjáraukalögin sem eina af sínum skýringum. En það er auðvitað ofsalega þægilegt að hafa svona eftirástimpil sem fjáraukalögin eru fyrir allt sem umfram er. Fjáraukalögin eiga að mæta óvæntum útgjöldum ríkissjóðs. Það er tilgangur þeirra. Núverandi ríkisstjórn virðist hins vegar nota þau markvisst fyrir fyrirséð útgjöld sem ráðherrarnir leggja í eftir að fjárlögin hafa verið afgreidd.

Það hafa verið afgreidd fjáraukalög upp á tugmilljarða kr. undanfarin ár. Aðeins á síðasta ári voru afgreidd fjáraukalög upp á 20 milljarða. Það er ekki góð fjármálastjórn að hafa regluleg fjáraukalög upp á tugmilljarða kr. Þess vegna er þessi skýring hæstv. fjármálaráðherra ekki góð og í raun staðfestir hún málflutning stjórnarandstöðunnar um óvandaðar áætlanir hæstv. ráðherra.

Það er annað sem hæstv. fjármálaráðherra bendir á í sínu máli til að styðja það, það er gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga. Þetta á að vera eitthvert töfraorð sem tryggir málflutning ráðherrans. Hæstv. fjármálaráðherra virðist gleyma að í hans eigin fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir þessum lið eins og ber að gera. Þessi liður er núna í fjárlagafrumvarpinu. Því þýðir ekki að benda ætíð á að þessi liður sé einfaldlega hæstv. fjármálaráðherra og ríkisfjármálum alveg óviðkomandi. Ef hæstv. fjármálaráðherra sér fram á stóraukna gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga, þá á það að vera í frumvarpinu sjálfu. Það þýðir ekki að benda ár eftir ár á óvænta gjaldfærslu upp á tugmilljarða kr. Í raun staðfestir þessi skýring einnig málflutning okkar í Samfylkingunni að fjárlagafrumvarpið sé varla pappírsins virði.

Í stuttu máli snýst málflutningur hæstv. fjármálaráðherra um að fjárlög og fjárlagafrumvarpið séu ekki samanburðarhæf við ríkisreikninginn sem sýni raunveruleikann eins og hann birtist. Hins vegar hikar ekki hæstv. fjármálaráðherra við að bera sjálfur saman fjárlögin við ríkisreikninginn þegar það hentar honum. Það er ekki lengra síðan en í morgun sem hæstv. fjármálaráðherra gerði það í sinni eigin framsöguræðu. Þar segir hann á bls. 4 með leyfi forseta:

„Tekjuafgangur ríkissjóðs árið 2005 er áætlaður 11,2 milljarðar króna í frumvarpinu og styrkist staðan nokkuð frá áætlaðri útkomu þessa árs og verulega miðað við ríkisreikning 2003.“

Þarna ber hæstv. fjármálaráðherra sjálfur tekjuafgang við útkomu ríkisreiknings, alveg eins og við í Samfylkingunni höfum verið að gera.

Það er einnig í þessu sambandi rétt að benda á annað frumvarp sem þessi sama ríkisstjórn lagði fram árið 1996. Þetta var frumvarp til laga um fjárreiður ríkisins. Þá var m.a. gerð sú breyting að fjárlagafrumvarpið var sett á rekstrargrunn í stað greiðslugrunns. Við skulum bara líta á hvað stendur bókstaflega í þessu frumvarpi ríkisstjórnar Geirs H. Haardes. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hingað til hefur fjárlagafrumvarpið verið sett upp á greiðslugrunni en hér er lagt til að það verði á rekstrargrunni en greiðsluhreyfingar jafnframt sýndar. Breytingin hefur það í för með sér að áætlanir fjárlaga og niðurstöður ríkisreiknings verða að fullu samanburðarhæfar, ...“

Þetta stendur orðrétt í frumvarpi ríkisstjórnar Geirs H. Haardes.

Þetta er einmitt það sem við í Samfylkingunni erum að gera. Við erum að bera saman fjárlögin eða fjárlagafrumvarpið við útkomna ríkisreikninga. En samanburðurinn er hæstv. fjármálaráðherra svo sár að hann reynir að þæfa umræðuna í þeirri von að geta búið til tortryggni í kringum okkar málflutning.

Niðurstaðan sem m.a. Ríkisendurskoðun, sem er óháð ríkisstofnun, staðfestir er að fjármálastjórn ríkisins undir stjórn hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haardes, er með öllu afleit og mundi ekki einu sinni duga í lítilli sjoppu hvað þá meira.