131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:54]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Talsvert hefur verið rætt um að þingið sé ekki nægilega sjálfstætt, þ.e. að framkvæmdarvaldið vaði yfir þingið á skítugum skónum. Sú umræða hefur lengi staðið yfir.

Hér erum við að ræða fjárlög, fyrst og fremst fjárlög ríkisstjórnarinnar. Þegar þingmenn vilja ræða við einstaka fagráðherra um einstök tiltekin mál er alveg skelfilegt að einstakir þingmenn sem hér sitja skuli koma upp og skjóta skildi fyrir fjarstadda ráðherra og lýsa þá jafnvel lýðskrumara sem kalla eftir því að ráðherrarnir séu viðstaddir.

Það er ekki nema von, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin telji sig geta vaðið yfir þingið ef þetta er almennt viðhorf. Ef þetta er almennt viðhorf þeirra þingmanna sem styðja ríkisstjórnina.

Það er í raun aðeins eitt fyrir hv. þm. Drífu Hjartardóttur að gera, þ.e. að koma hér upp og biðjast afsökunar á ummælum sínum. Það er það eina sem hv. þingmaður getur gert í þessari stöðu.