131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[14:01]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Þetta verkfall kemur okkur öllum við. Það hefur vissulega rík samfélagsleg áhrif. Það er kannski ekki ástæða til að tíunda þau hér en við þau þekkjum öll og á eigin skinni margir hverjir, bæði kennarar og þingmenn.

Mér er næst skapi að beina þeirri spurningu til málshefjanda hvaða tilgangi hann ætlar þessari umræðu að þjóna, nú þegar hinar erfiðu viðræður kennara og sveitarfélaga standa yfir. Ég lít þannig á að hafi auknar kröfur til skólastarfs og fjölbreyttari þjónusta leitt til kostnaðarauka sem sveitarfélögin telja að kalli á endurmat á tekjustofnum þá beri þeim að leysa þann vanda í annan tíma. Það á ekki að blanda þeirri umræðu inn í kjaradeiluna núna. Til þess er allt of mikið í húfi. Hver dagur sem þetta verkfall stendur skiptir miklu máli fyrir alla þá sem verða fyrir því, ekki bara þolendurna, nemendur og foreldrar þeirra, heldur fyrir alla kennarana sem eru ekki í vinnu.

Mig langar af þessu tilefni, frú forseti, að vekja sérstaka athygli á því að í þessu verkfalli sitja nemendur heldur ekki við sama borð. Sum börn fengu í sumum skólum að fara með bækurnar sínar heim og sum voru beinlínis hvött til þess en öðrum börnum hefur verið meinað að sækja námsbækurnar sínar í skólana. Eins ber að hafa í huga að aðstæður á heimilum barna eru mismunandi fyrir foreldrana til að aðstoða þau og styðja og draga þannig úr neikvæðum áhrifum verkfallsins fyrir námsgengi og námsframvindu barnanna.

Ég vil benda á að þetta er í framkvæmd í hróplegu ósamræmi við eitt af meginmarkmiðum okkar, sem er jafnrétti allra til náms. Það er mín skoðun, herra forseti, að eini tilgangur málshefjanda í þessari umræðu sé að reyna að draga ríkisstjórnina inn í deilu sem hún á sannarlega enga aðild að og reyna að koma á hana höggi.