131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:59]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðherra fyrir að vekja athygli á því að orðalag, bæði varðandi Hagstofuna og Snorrastofu, er auðvitað afskaplega óheppilegt því verið er að gefa það fyllilega í skyn að það séu einhverjir aðilar utan þings sem geti tekið ákvarðanir út frá hinu og þessu og það eigi bara að gilda. Ég vona því að næst þegar við sjáum slíkt frumvarp verði hæstv. ráðherra búinn að tryggja það að slíkt orðalag sjáist ekki oftar og ef gerð hafa verið mistök séu þau bara viðurkennd sem slík vegna þess að auðvitað geta þau alltaf orðið þó svo að við stefnum að því að fækka þeim eins og kostur er. En að gefa það til kynna í frumvarpi til fjáraukalaga að það séu einhverjir sem geta dregið ályktanir af hinu og þessu og þar með eigi þeir að fá ákveðna fjármuni eru auðvitað hlutir sem ekki er hægt að bjóða upp á.