131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:02]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja aðeins út af þessu Grettismáli að auðvitað verður fjárlaganefndin að fara yfir það. Þegar ég segi að menn höfðu ákveðið, eða mér var a.m.k. sagt að menn hefðu ákveðið, að veita meiri fjármuni þarna á ég auðvitað við meiri hlutann í nefndinni. Þetta er auðvitað allt gert á hans ábyrgð og hið sama er að segja um þetta bréf. Ég vil þó taka það fram að ég var í sambandi við varaformann nefndarinnar út af þessu máli.

Varðandi Landsvirkjun og endurgreiðslu virkjanakostnaðar er það þannig í lögum að ríkið á endurgreiðslukröfu gagnvart þeim kostnaði sem Orkustofnun hefur lagt út vegna virkjanarannsókna sem síðan leiða til framkvæmda. Það var gengið frá því með skuldabréfi fyrir einhverju síðan hvernig Landsvirkjun mundi endurgreiða kostnaðinn sem ríkið varð fyrir í gegnum Orkustofnun vegna framkvæmdanna fyrir austan. Þetta er gömul aðferð og hefur iðulega verið notuð. Hún er í sjálfu sér mjög eðlileg, ef grunnrannsóknir breytast í hagnýta framleiðslu orku er það endurgreitt sem út hefur verið lagt.

Varðandi Flugmálastjórn og þetta hlutafélag sem ætlunin er að stofna verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki smáatriðin í því. Þar er þó um að ræða ákveðnar skipulagsbreytingar sem m.a. eru hugsaðar til þess að gera Flugmálastjórn auðveldara að selja þjónustu sína til erlendra aðila og verða virkari á þessum markaði sem um er að tefla í alþjóðaflugþjónustunni. Ég held að þetta sé mjög jákvæð breyting í sjálfu sér þó að hún kalli hér á einhverjar skipulagsbreytingar og þessa breyttu tilhögun varðandi fjárveitingar.