131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég harma það að ekki var orðið við ósk Samfylkingarinnar um að táknmálstúlka þessa umræðu um málefni heyrnarlausra, sérstaklega þar sem Samfylkingin var reiðubúin að greiða þá túlkun en mun ekki frekar ræða þá niðurstöðu forseta nú.

Herra forseti. Um áratugur er liðinn frá því að hugmyndir um fyrirkomulag túlkaþjónustu voru kynntar í ríkisstjórn og fjármagn til túlkunar eyrnamerkt því verkefni. Síðan þá hefur aldrei verið eyrnamerkt fjármagn til túlkaþjónustu og sífelld óvissa um framlag sem á þessu ári er um 4 millj. kr. Ekki náðist samstaða þá fremur en nú um framkvæmdina og málið var sett í nefnd, þá fyrstu af þremur sem fengið hafa túlkamálin árangurslaust til umfjöllunar. Síðasta nefndin var skipuð fulltrúum þriggja ráðuneyta, heilbrigðis-, félags- og menntamála og samdi hún drög að frumvarpi um táknmálsþjónustu haustið 2001. Það dagaði uppi í menntamálaráðuneytinu og var aldrei lagt fram á Alþingi. Allan þennan tíma hefur Félag heyrnarlausra ítrekað leitað eftir að varanleg lausn verði fundin sem tryggi heyrnarlausum túlkaþjónustu. Í tæp 6 ár var öllum beiðnum félagsins um úrlausn svarað á einn veg: Að beðið yrði niðurstöðu starfshóps sem væri að störfum á vegum forsætisráðuneytis og hefði það hlutverk að fjalla um verkaskiptingu ráðuneyta í málaflokki fatlaðra. Honum væri ætlað að leggja fram tillögur um frambúðarlausn á túlkaþjónustumálum heyrnarlausra og hvernig ætti að standa straum af kostnaðinum.

Sú er hér stendur þekkir það mál afar vel sem flutningsmaður tillögunnar um nefndarstarfið og þátttakandi í því. Starfshópurinn var leystur frá störfum í beinni útsendingu á Alþingi í desember 2002 og mátti telja fundina sem haldnir höfðu verið á fingrum annarrar handar.

Í mars í fyrra svaraði þáverandi forsætisráðherra fyrirspurn um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu á þann veg að það væri langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar að tryggja að heyrnarlausir geti umgengist móðurmál sitt með þeim hætti að það sé jafngilt því sem aðrir búi við og tryggi það með lögum. Þær umræður urðu í kjölfar mótmæla við Alþingishúsið þar sem forsætisráðherra var í annað sinn afhent áskorun um að ríkisstjórnin tryggði réttinn til túlkaþjónustu. Í aðdraganda kosninga í febrúar 2003 var málþing Félags heyrnarlausra undir yfirskriftinni Réttindi, menntun, lífsgæði. Þar kom fram ótvíræður vilji allra stjórnmálaflokka til að tryggja réttarstöðu heyrnarlausra í samfélaginu. Minna hefur orðið um efndir.

Þessar stiklur mínar undirstrika langvarandi og óskiljanlegan viljaleysi ríkisstjórnarinnar til taka á málum þessa þjóðfélagshóps sem þarfnast svo mjög að aðrir ljái honum rödd. Frá því í vor hefur ríkt ófremdarástand í túlkaþjónustumálunum. Samskiptamiðstöð hefur synjað heyrnarlausum um túlkaþjónustu í daglegu lífi með vísan til reglugerðar frá síðasta ári. Tugur einstaklinga kærði ákvörðunina til menntamálaráðherra sem staðfesti synjunina. Umboðsmanni Alþingis hefur borist kvörtun vegna málsins. Með úrskurði sínum staðfesti menntamálaráðherra að heyrnarlausir eigi ekki rétt á endurgjaldslausri túlkaþjónustu í daglegu lífi.

Mér er kunnugt um að fyrir helgina gerði Félag heyrnarlausra tillögu til menntamálaráðherra um leið sem hugsanlega gæti orðið sáttaleið. Skilst mér að þar séu hugmyndir um verkefni sem byggja á aðferðafræði sem Danir hafa nýtt sér og væri áhugavert að heyra nánar um það. Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvernig verði brugðist við þessu ófremdarástandi og áralangri óvissu og hvort hún hyggist tryggja heyrnarlausum rétt til túlkaþjónustu. Telur ráðherra að tillögur Félags heyrnarlausra séu skoðunar virði? Eru önnur áform uppi hjá hæstv. ráðherra um að leysa túlkaþjónustu heyrnarlausra til frambúðar og þá hvernig?

Virðulegi forseti. Þær fjárhæðir sem hafa verið nefndar í umræðunni um túlkaþjónustu eru ekki þess eðlis að þessi vandi geti snúist um peninga.