131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:42]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Andsvör eru til að spyrja hv. ræðumann en ekki öfugt. Ég kem hingað í ræðu á eftir. Þá getur hv. þm. spurt mig. Ég var að spyrja hann og leiðrétta það sem hann sagði.

Hann hélt því fram að þeir sem hefðu 500 þús. kr. tekjur mundu njóta þessa. Það er bara ekki rétt. Í fyrsta lagi eru þetta 3.600 kr. sem hver fjölskylda sparar með þessum tillögum í hverjum mánuði. Það er vissulega ágætt. En það svarar til 1% tekjuskattslækkunar af 360 þús. kr. mánaðarlaunum. Það mundi þýða að skurðpunkturinn, þeir sem græða á því, eru fjölskyldur sem hafa yfir 360 þúsund kr. á mánuði. Hjón með 180 þús. kr. á mánuði, hvor einstaklingur. Útgangspunkturinn hjá hv. þm., að miða við 500 þús. kr. tekjur einstaklings, hann gat ekkert um það og ég þurfti að leiðrétta hann úr sæti mínu, varðandi 500 þús. kr. tekjur er ekki réttur. Þetta eru 360 þús. kr., þ.e. fjölskyldutekjurnar sem svarar til lækkunarinnar á 60 þús. kr. útgjöldunum.