131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:32]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson þakkar mér fyrir að vera hér í sal og svara fyrir stefnu okkar í skattamálum. Ég verð kannski að hryggja hv. þm. pínu því það er bara minnsta málið vegna þess að ég er afskaplega stolt af stefnu okkar í skattamálum og mjög sátt við hana. Þetta er auðvitað sameiginleg stefna þessara tveggja stjórnarflokka og við teljum að þessi tekjuskattslækkun muni svo sannarlega skila sér vel til fólksins. Við skulum ekki gleyma því að þetta skilar sér vel t.d. til ungs fólks sem er að byrja að koma sér upp húsnæði og öðru og vinnur mikið og hefur vonandi miklar tekjur, svo að ég nefni dæmi.

Það er auðvitað hægt að nefna slík dæmi sem þið hafið varðandi hvað hver greiðir í skatt og hversu miklu það skilar ákveðnum hópum. Auðvitað er það þannig að eftir því sem menn hafa meira í skatt þeim mun meira fá þeir út úr þessum lækkunum, það gefur augaleið. En þeir eru líka að greiða meira í þágu samfélagsins þannig að ég held að þessi samlíking dæmi sig nú alveg sjálf.

Ég ítreka það að ég er stolt af markmiðum okkar í skattamálum og hlakka til þess að fara inn í næstu kosningabaráttu með lækkun tekjuskattsprósentu.