131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:36]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Málið sem er til umræðu í dag er mikið réttlætismál og hefur fengið góða og ítarlega umræðu, en auðvitað hafa menn farið nokkuð vítt um völlinn. Málið varðar allar íslenskar fjölskyldur. Eins og hv. 1. flm., Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, kom inn á í ítarlegu máli sínu áðan erum við að tala um 5 milljarða. Það þarf ekki að fara mikið yfir það sem þar kom fram. Flutningsmaður gerði grein fyrir því og ljóst að allar fjölskyldur munar um þetta.

Það eru fleiri ávinningar í málinu eins og hv. 4. þm. Suðvest., Rannveig Guðmundsdóttir, benti á varðandi lækkun neysluverðsvísitölu. Auðvitað munar skuldugar fjölskyldur um þetta. Það munar allar fjölskyldur um þetta.

Ég vil nefna þann kost frumvarpsins sem ég tel þann þriðja og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á, að Ísland er ferðamannaland. Við fáum gesti til lengri eða skemmri dvalar sem þurfa að kaupa hér matvæli. Þessir gestir okkar vita vel út í hvað þeir eru að fara. Þeir hafa kynnt sér hvernig matarverðið er og vita að það stendur engan samjöfnuð við verð í heimalandi þeirra. Því hafa margir þeirra brugðið á það ráð, og gætu þessi lög komið í veg fyrir það, að flytja með sér meira og minna allt það nesti sem þeir þurfa til dvalarinnar.

Hins vegar er löngu aflagt eins og tíðkaðist á árum áður að íslenskir stúdentar sem fóru til náms í Kaupmannahöfn höfðu með sér eina tunnu af súrmat til þess að auðvelda sér dvölina. Það mundi ekki svara kostnaði núna og lentu margir í því að velta með þetta niður stiga þegar þeir voru að bera þetta upp á 5. hæð í leiguherbergi undir súð í Studiestræde og brjóta fót, en höfðu þó ort eitt ódauðlegt kvæði.

Ísland er ferðamannaland. Það varðar ferðaþjónustuna miklu að kjör þeirra sem heimsækja okkur séu sambærileg og gerast í öðrum löndum. Ferðaþjónustan þarf virkilega á einhverju slíku að halda. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um vínið, við skulum tala um matinn. Þessi atvinnugrein sem aflar gjaldeyris gæti styrkst gríðarlega við þetta. Því er þetta mál þarft og gott.

Af ræðum hv. þm. stjórnarflokkanna reyndi maður að lesa svolítið í spilin. Mér fannst hv. 2. þm. Norðuraust., Halldór Blöndal, tala í nokkrum véfréttastíl þegar hann sagði: „Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða.“ Maður les í orðin og telur að hjartað fylgi frekar því máli að lækka skatt sem þennan.

Það er aftur spurning hvað dvelur Framsóknarflokkinn. Það var þannig, fyrst talað er um kónga, þegar Sneglu-Halli dvaldist með Noregskóngi og vildi kenna honum selveiðar og sagði honum hvernig selir væru veiddir á Íslandi og lét kóng leggjast niður á árbakkann og lamdi hann svo með lurk í hausinn og sagði: „Svona eru selir veiddir á Íslandi.“ Kóngur þóttist þá fullnema og vildi fá að berja Halla með lurkinum til að hefna sín, en þegar kóngur reiddi höggið af steypti Halli sér í ána og sagði glottandi: „Svona fer kóngur, þá ekki vill veiðast.“ Kannski er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að veiða Framsóknarflokkinn í þessu góða máli.

Ég skildi hv. 3. þm. Reykv. s., Pétur H. Blöndal, þannig að verið væri að ræða þessi mál milli stjórnarflokkanna. Það væri þá óskandi að það tækist að veiða Framsóknarflokkinn í þessu góða máli sem ég tel að það vissulega sé.