131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[13:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og þakka öðrum hv. þingmönnum fyrir undirtektir. Okkur er öllum ljóst að fyrirkomulagið á að vera það að lágmarkskjör séu tryggð með vinnulöggjöfinni eins og þau eru samkvæmt gildandi kjarasamningum. En þeir sem vel til þekkja á svæðinu eystra orða það svo að þeir vonist til þess eða í besta falli sé það vonandi að verið sé að greiða lágmarkslaun, lágmarkskjör. En meira er það ekki. Og svo er til viðbótar ákaflega erfitt að sannreyna hvort svo sé í raun og veru. Þegar launin eru greidd í gegnum starfsmannaleigur inn á bankareikninga í Portúgal þá er umhendis fyrir hina íslensku trúnaðarmenn sem helst þurfa að reyna að hafa þarna eftirlit, ekki með sínum eigin félagsmönnum heldur með þessum erlendu starfsbræðrum sínum, að koma eftirlitinu við. Ég held að það sé mikilvægt að yfirvöld styðji við bakið á trúnaðarmönnum og stéttarfélögum, t.d. með því að láta Vinnumálastofnun fara meira en eina ferð þarna austur. Er þeim nokkuð að vanbúnaði að vera oftar viðstaddir útborgun launa en í eitt einasta skipti? Eru þeir svona blankir eða eru þeir flughræddir, mennirnir? Geta þeir ekki farið austur og lagt sitt lóð þar á vogarskálar?

Þarna eru t.d. við störf núna mjög margir Portúgalar sem flestir eru ráðnir af starfsmannaleigum og ástandið er þannig að launin eru greidd beint inn á reikning í Portúgal. Ég hef grun um að hæstv. fjármálaráðherra Geir Hilmar Haarde fái lítið í skatta enn af þeim launum. Síðan er þarna vaxandi fjöldi Kínverja. Þeir eru fluttir inn beint af verktakanum frá Kína og að sögn er ákaflega erfitt að komast að því á hvaða kjörum þeir eru og þeir ákaflega feimnir við að tjá sig yfir höfuð um sína veru hér, hvað þá sín launakjör. Því miður er þess vegna veruleg ástæða til að ætla að enn sé þarna pottur brotinn auk þess sem þetta vandamál er að sjálfsögðu að skjóta upp kollinum miklu víðar, í byggingariðnaðinum t.d. eins og ég nefndi og eins og nefnt var hvað varðar ýmis umönnunarstörf í láglaunageiranum.