131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

gStimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkru síðan ákváðu forráðamenn banka og lánastofnana að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sérstök lánakjör vegna íbúðakaupa. Með því hefði átt að komast á virk samkeppni milli þeirra stofnana sem bjóða lán til fasteignakaupa sem aftur hefði skilað sér í betri vaxta- og lánakjörum til þeirra sem eru að kaupa húsnæði eða eru með erfiða greiðslubyrði vegna húsnæðiskaupa. Svigrúm hefði átt að aukast verulega til þess að endurfjármagna og skuldbreyta hjá þeim sem eru með mikla skuldabyrði í dag sem oftar en ekki er ungt fólk með börn sem er eða hefur verið að koma sér upp húsnæði. Breytt samkeppnisumhverfi á lánamarkaði hvað varðar lán til íbúðakaupa og endurfjármögnun eldri lána vegna íbúðakaupa hefði getað orðið veruleg kjarabót en mun ekki virka sem skyldi vegna reglna um álagningu stimpilgjalds ef lántakandi ætlar að færa sig milli lánastofnana og njóta hagstæðustu kjara hverju sinni.

Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram frumvörp þess efnis að stimpilgjaldið verði lagt niður í þeirri mynd sem það er. Þessi óréttláti skattur bitnar harðast á fjölskyldum sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið og á smærri fyrirtækjum sem erfitt eiga með að nálgast lán erlendis frá.

Það er lágmarkskrafa að stimpilgjöld af skuldbreytingum og endurfjármögnun lána verði felld niður. Samkvæmt athugun sem Samtök atvinnulífsins fengu endurskoðunarfyrirtækið KPMG til þess að vinna þekkist það vart á hinum Norðurlöndunum að lagt sé á stimpilgjald í tengslum við endurfjármögnun lána. Þannig er ekkert stimpilgjald lagt á í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og í Danmörku er einungis greitt eitt fast gjald við endurfjármögnun vegna fasteignaveðlána. Hér erum við því sér á parti hvað þessa óréttlátu skattlagningu varðar.

Þær tekjur sem ríkissjóður hefur af þessum hluta stimpilgjalda geta ekki skipt sköpum. Aukin samkeppni á íbúðalánamarkaði er af hinu góða og getur skilað sér sem kjarabót fyrir einstaklinga og fjölskyldufólk. En álagning stimpilgjalda á endurfjármögnun lána getur virkað samkeppnishamlandi og þannig dregið úr möguleikum fólks til að leita bestu kjara hverju sinni. Því beini ég ásamt hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni eftirfarandi spurningu til hæstv. ráðherra:

1. Í hvaða aðildarríkjum OECD eru stimpilgjöld lögð á við endurfjármögnun fasteignaveðlána?

2. Eru ávallt innheimt stimpilgjöld við endurfjármögnun fasteignaveðlána?

3. Hvaða rök eru fyrir því að stimpilgjöld séu lögð á í annað sinn í tengslum við endurfjármögnun fasteignaveðlána?

4. Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að hætt verði að innheimta stimpilgjöld við endurfjármögnun fasteignaveðlána?