131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur viðbrögð hv. þingmanns. Út af fyrir sig, þó það sé kannski ekki beint svar við andsvari hans, þá er það alveg hárrétt að hér er talsverð umræða upp hafin um skattamál. Nú er tillöguflutningur á þingi með líflegra móti leyfi ég mér að segja. Hann er sjálfsagt að einhverju leyti í samhengi við það að skattamál fengu mikla athygli í aðdraganda síðustu kosninga og hæstv. ríkisstjórn er þar með ýmis plön uppi. Þetta leiðir svo hugann að því að ef menn væru að vinna að þessum hlutum á Íslandi virkilega yfirvegað og almennt þá hefðu þeir auðvitað sett niður einhvers konar meiri háttar starfshóp með helst aðild allra flokka sem hefði farið rækilega yfir það hvaða áherslur í skattkerfinu er nú um stundir skynsamlegt að hafa uppi, hverju við viljum breyta. Þá á auðvitað að líta á þetta allt saman, ekki bara rjúka til með kosningaloforð og segja sisona: „Við ætlum að lækka tekjuskatt.“ Og það langt inn í framtíðina án þess að vita hvernig hún verður að öðru leyti.

Síðan eru menn hér með virðisaukaskattinn undir. Hér eru þingmál frá bæði ríkisstjórn og Samfylkingunni um það. Hér er skattlagning fjármagnsteknanna þannig að allt ber það að sama brunni. Auðvitað hefði verið langæskilegast að vinna rækilega kortlagningu á stöðu skattkerfisins og þeim breytingum sem þar væri skynsamlegt að gera, í tekjuskatti, í fjármagnstekjuskatti, í veltusköttum, virðisaukaskatti, tollum, aðflutningsgjöldum o.s.frv. Síðan eru ýmsir minni skattar sem mættu kannski missa sín eins og stimpilgjöld og annað í þeim dúr.

Þetta er okkar innlegg og reyndar ekki það einasta því fleiri þingmál eru væntanleg frá okkur sem varða skattamál og tekjugrundvöll bæði ríkis og sveitarfélaga. Mér sýnist allt stefna í að hin háæruverðuga efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fái nokkuð að starfa í vetur og vonandi fá þessir hlutir allir góða skoðun þar.