131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Miðað við opinberar tölur má búast við að a.m.k. 10 manns hér í þessum sal noti geðlyf reglulega. Um 17% þjóðarinnar gera það að jafnaði samkvæmt opinberum upplýsingum og gera má ráð fyrir að a.m.k. helmingur þingmanna muni einhvern tímann eiga við geðræn vandamál að stríða.

Síðastliðinn sunnudag var alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn sem að þessu sinni var tileinkaður tengslum andlegs og líkamlegs heilbrigðis. Langvarandi líkamleg veikindi leiða oft til geðrænna sjúkdóma, svo sem þunglyndis, og geðrænir sjúkdómar leiða til líkamlegra sjúkdóma. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum. Órjúfanleg tengsl eru milli andlegs og líkamlegs heilbrigðis.

Miklar breytingar hafa orðið í þjónustu við geðsjúka hér á landi og átak gert í því að auka geðheilbrigði. Að því hafa komið einstaklingar, hópar og félagasamtök ásamt opinberum aðilum. Þar vil ég nefna Geðræktarverkefnið, Hugarafl, Geðhjálp, Rauða krossinn, klúbbinn Geysi og gæðaátak geðsjúkra og aðstandenda þeirra og svo nýjasta verkefnið „Notandi spyr notanda“, allt mjög mikilvægt og að mörgu leyti árangursríkt starf sem stjórnvöld hafa vissulega stutt við, og styðja.

En því miður er víða pottur brotinn. Stefnuleysi virðist ríkja, ástandið í þjónustunni er ekki nógu gott og biðin er löng. Fólk með geðsjúkdóma þarf að eiga kost á fjölbreytilegri þjónustu en einungis geðlæknisþjónustu og lyfjameðferð, svo sem viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða öðrum leiðum eins og hreyfingu.

Alþingi hefur samþykkt lagabreytingu þar sem heimilt er að niðurgreiða sálfræðiþjónustu á sama hátt og geðlæknisþjónustu. Hvernig stendur á því að sú er ekki orðin raunin? Á Arnarholti er verið að loka 20 rúma deild. Á síðustu átta árum hefur verið lokað geðdeildum með á annað hundrað rúmum á Landspítalanum án þess að nokkuð kæmi í staðinn til þess að mæta umönnunar- og þjónustuþörf mikið veikra langtímasjúklinga. Fjöldi þeirra er á vergangi vegna ófullnægjandi meðferðar og öryrkjum vegna geðraskana hefur fjölgað verulega. Þeir hafa tvöfaldast á þessu tímabili og fólk er útskrifað áður en það getur fótað sig. Á þetta bendir Tómas Helgason prófessor, fyrrverandi yfirmaður geðsviðs Landspítala, í Morgunblaðinu á dögunum.

Hér verður að bæta úr.

Svo má líka nefna að algengur biðtími eftir að komast til geðlæknis er 3–5 mánuðir. Geðhjálp hefur ítrekað bent á að göngudeildarúrræði vanti tilfinnanlega sem og meðferðarúrræði ásamt lyfjagjöf og eftirfylgni með geðsjúkum. Nú bíða 380 manns með geðrænan vanda eftir meðferð á Reykjalundi. Biðin þar er rúmlega eitt ár, hún er þó raunar lengri vegna þess að læknar eru hættir að setja fólk á biðlista.

Staða heimilislausra mikið geðveikra einstaklinga sem eru 20–30 á höfuðborgarsvæðinu er afleit. Þeir velkjast um í kerfinu án úrlausnar. Þeir eru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Við þekkjum þetta, við sjáum þetta fólk úti á Austurvelli nánast daglega.

Svo er það barna- og unglingageðdeildin þar sem aldrei hafa jafnmargir beðið eftir þjónustu. 90 bíða eftir mati og meðferð, 6–8 mánaða bið er eftir leguplássi þar og þar bíða um 30 börn og unglingar. Hátt í 100 bíða eftir félagsfærni- og einstaklingsþjálfun og þar er biðin tvö ár. Þetta ástand getur haft varanlegar og alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklingana og aðstandendur þeirra. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hvernig hyggst hann reyna að leysa bráðavanda þessa fólks sem ég hef nefnt í máli mínu?

Eitt enn. Öryggisleysi og óvissa ríkir um framhald menntunar og starfsendurhæfingarverkefnis Fjölmenntar og Geðhjálpar sem er mörgum geðsjúkum mjög mikilvæg og hefur í raun bjargað lífi fólks, samanber Fréttablaðið í dag. Verkefnið mun stöðvast um áramót ef ekkert verður að gert en aðeins helmingur umsækjenda komst að í haust vegna fjárskorts. Þó að þetta heyri ekki undir hæstv. heilbrigðisráðherra vil ég spyrja ráðherrann: Mun hann beita sér innan ríkisstjórnarinnar til að tryggja að verkefnið verði til frambúðar í ljósi fyrirbyggjandi og endurhæfingargildis þess?

Virðulegi forseti. Heildarstefnumótun í málefnum geðsjúkra vantar tilfinnanlega hér á landi og ég kalla eftir henni. Vissulega er þetta erfiður málaflokkur en það þarf að takast á við hann. Við þurfum að setja okkur markmið og benda á leiðir. Við höfum haft frábært frumkvæði eins og Geðræktarverkefnið sem hefur verið verðlaunað á heimsvísu og Latabæ sem einnig hvetur til heilbrigðis og miðast að yngstu kynslóðinni.

Ísland getur verið leiðandi í heilbrigðismálum en þá þarf átak til, og nú er lag.