131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:54]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að tala endalaust um þessi mál og fara í alls konar hringi og kasta athyglinni frá kjarna þingmálsins sem er til umræðu. Þingmálið er ekki svo flókið, hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Það er vandi í þjóðfélaginu sem snýr að fjárhag eldri borgara og hv. þm. viðurkenndi það í svari sínu við andsvari mínu að vandinn væri fyrir höndum. Hv. þm. svaraði ekki spurningu minni um það hvernig ríkisstjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hyggst taka á þeim vanda. Það komu engin svör um það. Engu að síður er vandinn mikill.

Málið er í eðli sínu einfalt, þó svo tal hv. þm. hafi verið mjög flókið. Það snýr að því að mynda brú á milli kerfa til að tryggja að eldri borgarar standi ekki frammi fyrir því óréttlæti að þær 50 þús. kr. sem koma til aukatekna umfram 70 þús. kr. séu ekki teknar til baka 80% eða 90%. Það er mjög óeðlilegt. Opinberar stofnanir eins og Hjálparstofnun kirkjunnar og Ráðgjafarstofa heimilanna setja fátæktarmörkin á ákveðinn stað samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum formúlum. Við getum ekki litið fram hjá þeim í okkar ríka landi. Hér er um sértækt þingmál að ræða sem mun kosta ríkissjóð 3–4 milljarða á endanum, það á eftir að koma í ljós í störfum nefndanna. En ég held að sá sparnaður sem komi til vegna fátæktargildrunnar sé afskaplega vanmetinn og er ekki reiknaður með í tölum mínum, aukinn lyfjakostnaður, sjúkralega og svo má lengi telja. Það getur tekið á að eiga ekki skildinginn. Það getur tekið af heilsu fólks að eiga ekki skildinginn. (Forseti hringir.) Þarna eru vanreiknaðar tölur.