131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:00]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Skerðingin núna er 45%, síðan kemur tekjuskattur ofan á það og ég hef heyrt mjög marga kvarta undan því, með réttu, að þeir sjái ósköp lítið af hækkuninni sem verður hjá lífeyrissjóðnum þannig að að því leyti er þessi tillaga réttmæt. Ef við hins vegar horfum á þann sem er að greiða þetta, launþegann, og það verðum við alltaf að gera, má hann ekki vera verr settur. Við getum ekki hækkað mann við það að fara á lífeyri úr 140 þús. upp í 170 þús. kr. Það er greitt af þeim sem unnu með honum áður á 140 þús. kr. Þetta er vandinn. Kannski má segja að grunnlífeyrir almannatrygginga sé orðinn allt of hár. Það er kannski það sem kristallast út úr umræðunni.

Varðandi það að menn hafi svindlað á kerfinu, það var ósköp einfalt að reikna út. Launin í þjóðfélaginu eru þekkt, menn áttu að borga 10% í lífeyrissjóð en gerðu það ekki og það var hægt að reikna út að 40 þús. manns greiddu ekki í lífeyrissjóð á þessum upphafsárum lífeyrissjóðanna, frá 1980 þegar allir áttu að greiða í lífeyrissjóð. Síðan var sett eftirlit með því fyrir u.þ.b. átta árum — ríkisskattstjóri átti að fylgjast með því — og þá jukust skilin allverulega. Þeir sem greiddu ekki í lífeyrissjóð þá standa núna uppi í Tryggingastofnun og krefjast þess að geta lifað af bótunum en gleyma 10% sem þeir greiddu ekki í lífeyrissjóð og gátu þá sparað miðað við hina.

Hvað er verið að gera? Það er verið að lækka tekjuskatt t.d. um 1% sem þýðir að maðurinn sem er með 140 þús. kr. verður þá með 1.400 kr. meira til ráðstöfunar. Það er kannski ekki mikið en það er stefnt að því að fara upp í 4% og þá eru menn með fjórum sinnum þá tölu í hverjum einasta mánuði.