131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg um lífeyrismálin. Þessi tillaga til þingsályktunar sem hér er til umræðu hefur komið fram í þinginu áður og full ástæða er til að ræða kjör lífeyrisþega reglulega á meðan staðan er eins og hún er.

Áður en ég byrja að tala um þessa tillögu langar mig að gera athugasemdir við nokkur atriði sem hafa áður komið fram í umræðunni, m.a. þá staðhæfingu að þetta hafi aðallega verið sjálfstæðir atvinnurekendur sem ekki hafa borgað í lífeyrissjóð, þeir hafi verið svo margir sem ekki greiddu í lífeyrissjóð. Við verðum að muna að á þessum tíma var fjöldi kvenna ekki úti í atvinnulífinu, (Gripið fram í: ... tekjurnar?) fjöldi kvenna sem alls ekki tók þátt í atvinnulífinu, var ekki með tekjur og á engan rétt í lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru þannig að það er ekki sameiginlegur lífeyrissjóður hjóna. Þess vegna er stór hluti þeirra sem á að fara að rétta kjörin hjá samkvæmt þessari tillögu gamlar konur, fullorðnar konur sem þurfa að draga fram lífið á almannatryggingagreiðslunum einum saman.

Það er svo komið að allir lífeyrisþegar, bæði aldraðir og öryrkjar, greiða skatt. Skattleysismörkin eru komin niður fyrir lægstu bætur. Það er breyting sem hefur orðið á undanförnum árum því að áður voru skattleysismörkin undir lágmarksbótum.

Menn hafa líka verið að ræða það hér að lífeyrissjóðirnir séu að taka við af almannatryggingunum, að lífeyrisgreiðslurnar, þ.e. ellilífeyrir og örorkugreiðslurnar, séu farnar að koma frá lífeyrissjóðunum en auðvitað er alltaf ákveðinn hópur sem þarf að treysta á almannatryggingarnar. Þess vegna ætti að vera hægt að gera svona leiðréttingar eins og hér er verið að leggja til. Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til þessarar leiðar en mér sýnist að hérna sé verið að hækka frítekjumarkið og þrengja skerðingarregluna verulega miðað við reglurnar eins og þær eru í dag. Í dag er það svo að grunnlífeyririnn skerðist um 25% tekna umfram frítekjumark og síðan aðrir bótaflokkar um 45%, þ.e. tekjutryggingin og tekjutryggingaraukinn. Þarna er greinilega verið að bæta verulega kjör þeirra sem þurfa að treysta á almannatryggingarnar og þar er auðvitað þessi hópur kvenna sem ég nefndi. Auðvitað væri full ástæða til að skoða nánar stöðu aldraðra kvenna sem hafa margar hverjar engan rétt í lífeyrissjóðunum.

Líka hefur verið komið aðeins inn á framfærslukostnað. Við vitum það og þekkjum að framfærslukostnaður hefur verið reiknaður út fyrir einstaklinga og hann er mishár eftir því hver er að reikna. Í fjárlagaumræðunni í byrjun mánaðarins kallaði ég eftir því hjá hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann gæti upplýst mig um framfærslukostnað aldraðs einstaklings en sá kostnaður lá ekki fyrir. Auðvitað vitum við það að eftir því sem árin færast yfir koma alls konar kostnaðarliðir inn. Þó að tekið sé tillit til þess í heilbrigðiskerfinu og aldraðir þurfi að greiða lægra gjald fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf er þó nokkur hópur aldraðra sem ekki hefur tök á því að greiða fyrir þessa þjónustu, hefur ekki tök á því að leysa út lyfin sín. Það er rétt sem kom fram áðan í umræðunni að fátækt getur verið samfélaginu mjög dýr. Fátækt leiðir af sér veikindi, þunglyndi, vanlíðan og það að fólk nýtir sér ekki heilbrigðiskerfið eins og það þyrfti. Það er dýrt að láta fátækt viðgangast.

Vegna þessa þingmáls langar mig að minna á þingmál sem Samfylkingin hefur flutt nokkrum sinnum um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Þar er nálgunin svolítið önnur en í þessu þingmáli þeirra hv. þm. Frjálslynda flokksins. Þar er lagt til í þingsályktunartillögu að samtök aldraðra og öryrkja komi að því að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega þannig að enginn þurfi að búa við fátækt eða óvissu um kjör sín. Við höfum lagt þetta til. Reyndar kom ríkisstjórnin á ákveðinni samráðsnefnd við aldraða fyrir kosningar en ástandið í þeim málum er þannig að sú samráðsnefnd hefur ekki verið kölluð saman síðan fyrir kosningar. Eitthvað hefur þó verið gert í þeim málum sem þessi nefnd lagði til en allt of margt er óuppfyllt eins og óskirnar um bætt kjör frá Tryggingastofnun sem er einmitt samhljóða tillögunni hér um að bæta kjör lífeyrisþega.

Auðvitað getur þjóðfélag varla talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim séu tryggð sómasamleg kjör. Ég veit að þó nokkuð stór hópur aldraðra og öryrkja býr við bágborið ástand, sérstaklega aldraðir. Í síðustu viku var ég á fundi með stórum hópi aldraðra þar sem þessi mál einmitt komu til umræðu og menn voru mjög ósáttir við þau kjör sem þeir búa við. Grunnlífeyrir hefur t.d. ekki hækkað nema um 600 kr. frá árinu 2002 og síðan tekjutryggingin um 3.000 kr. Auðvitað kemur tekjutengingin þarna mjög grimmt inn og síðan skatturinn þannig að þetta eru mjög litlar hækkanir þegar upp er staðið. Hjá þeim sem eru á almannatryggingagreiðslunum einum saman er oft mjög þröngt í búi.

Tími minn er senn á enda en mig langar í lokin til að benda á að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum. Það kemur einmitt fram í greinargerð með þessu þingmáli okkar um afkomutryggingu til aldraðra. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu frá almannatryggingunum. Það er allstór hópur sem þarf enn þá að treysta á almannatryggingarnar og mun verða á næstu árum. Þó að framtíðarsýnin sé björt að mati sumra er það ekki svo alls staðar. Það gagnast ekki þeim sem búa við þessi kjör í dag þó að e.t.v. verði kjörin betri eftir 10, 20 eða 30 ár þannig að ég held að virkilega þurfi að taka á í þessum málaflokki.