131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:04]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst, bæði mér og síðasta ræðumanni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að góðar samgöngur eru undirstaða fyrir þróun byggðar og atvinnulífs. Við erum alveg sammála um það. En hvernig má það vera í ljósi þeirra staðreynda að það er dýrara að flytja gám landleiðina en sjóleiðina? Hvernig má það vera að fyrirtæki úti á landi, sem vilja auðvitað stuðla að því að atvinnulíf sé þar gott og góður rekstur, flytja vöru sína landleiðina frekar en sjóleiðina þegar menn tala um það sem allt frá 30% og upp í 70% dýrari kost en hann er frekar valinn? Getur það verið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það sé eitthvað að hjá atvinnurekandanum sjálfum eða jafnvel sveitarfélögunum? Eru sveitarfélögin ekki í neinu samstarfi um að koma sér saman um að nýta eina höfnina annarri frekar? Ég nefni t.d. Skagaströnd og Sauðárkrók. Er einhver samvinna þar á milli? Eða er það kannski hluti af málinu að ef gámurinn er kominn á bíl á annað borð sé miklu betra að keyra hann til Reykjavíkur en að hann fari í eitthvert annað sveitarfélag til einhverrar annarrar hafnar þar sem kannski er einhver núningur á milli sveitarstjórna í þessum málum?

Ég hef það á tilfinningunni að hér vinni sveitarfélög ekkert saman og að það sé m.a. hluti af málinu að eitt sveitarfélag geti ekki hugsað sér að keyra gám í annað sveitarfélag til annarrar hafnar þar sem það sveitarfélag fengi þá skipagjöldin, vörugjöldin, hafnargjöldin og hvað þessi gjöld heita. Þau séu ekkert að láta aðra hafa þessi gjöld og keyri gáminn bara til Reykjavíkur.