131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:46]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ef rússneskur herskipafloti hefði lagst upp við landsteinana fyrir tveimur, þremur áratugum hefði heyrst hljóð úr horni, ekki bara hér á landi heldur einnig í Washington og í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Ástæðan fyrir harðari viðbrögðum fyrr á tíð en nú er ekki sú að Íslendingar hafi þá óttast meira hættuna af kjarnorkuknúnum herskipum á gjöfulum fiskimiðum rétt undan Íslandsströndum. Ef eitthvað er eru menn nú meðvitaðri um hættuna af kjarnorkuvopnum og kjarnaofnum. Ástæðan fyrir hvellinum sem hefði orðið fyrr á tíð er að sjálfsögðu sú að Bandaríkin hefðu talið sér ógnað. Bandaríkin hefðu litið á komu Rússanna inn á sitt áhrifasvæði sem ögrun og ógnun.

Nú er öldin hins vegar önnur. Nú er bandarískum ráðamönnum sama. Þeir líta ekki á Rússa sem ógnun við hagsmuni sína. Þess vegna þegja þeir. En það sem verra er, þess vegna þegja íslenskir ráðamenn líka. Er það vegna þess að okkur stafi engin hætta af veru herskipanna hér á Íslandsmiðum? Jú, það hefur komið rækilega fram í þessum umræðum. Það eru allir á því máli.

Þess vegna spyrjum við: Hvers vegna þessi þögn? Hún er að sjálfsögðu vegna þess að ríkisstjórn Íslands samsamar sig bandarískum öryggishagsmunum en ekki íslenskum öryggishagsmunum. Það er dapurlegt.