131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:13]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa komið upp í andsvörum í dag og hæstv. ráðherra sjálfum að hér er mjög merkilegt mál á ferðinni og vonandi náum við að afgreiða það frá Alþingi í vetur. Við í samgöngunefnd munum hefja vinnu í málinu eftir þessa umræðu og afgreiðslu þess eftir 1. umr.

Það eru nokkur atriði sem er freistandi að koma aðeins inn á við þessa umræðu og fróðlegt að lesa frumvarpið og greinargerðina svona í því ljósi hve ör þessi þróun hefur verið. Hún beinir að sjálfsögðu sjónum að því sem hv. þm. Kristján L. Möller kom aðeins inn á áðan, sem er ADSL-kerfið og hve hlutur landsbyggðarinnar er rýr í því sambandi þar sem Síminn ákvað og setti upp skilgreind efri mörk um að hann færi ekki með lagningu háhraðatengingarinnar ADSL inn á svæði sem væru undir ákveðinni íbúatölu. Það er mjög ámælisvert að slík ákvörðun hafi verið tekin á sínum tíma, enda er Síminn í eigu hins opinbera. Síminn er þjónustufyrirtæki fyrir fólkið í landinu og átti að sjálfsögðu að nota auð sinn og mátt til að byggja upp háhraðanet fyrir helst alla landsmenn í staðinn fyrir að vera að vesenast með fjármagn sitt og auð í því að kaupa upp hálfgjaldþrota sjónvarpsfyrirtæki eins og Skjá einn. Þar eru mjög óeðlilega að málum staðið að Síminn skuli ekki hafa beitt áhrifum sínum og auði til þess að tryggja öllum landsmönnum aðgang að háhraðaneti, ADSL-kerfinu. Beindi ég skriflegri fyrirspurn í fyrra til hæstv. samgönguráðherra um hvernig þeim málum væri háttað.

Í svarinu kom í ljós að hinar dreifðu byggðir hafa almennt ekki aðgang að háhraðaneti. Þar gilda gömlu símalínurnar nema þar sem einkafyrirtæki eins og eMax og Ábótinn hafa haslað sér völl og eru að bjóða upp á háhraðatengingar í gegnum örbylgjusenda. Ég sjálfur keypti mér slíka þjónustu um daginn, hún er ágæt en hún er dýr miðað við hina og það er algjörlega óboðlegt að hinar dreifðu byggðir séu settar svona hjá. Eftir þá samskiptabyltingu sem hefur átt sér stað í heiminum á síðustu árum eru þau byggðarlög, þau heimili og þau svæði þar sem ekki er aðgengi að fyrsta flokks fjarskiptaþjónustu einfaldlega annars flokks. Þau eru ekki samkeppnishæf við önnur byggðarlög eða önnur svæði af því að fólk í dag setur sig ekki niður nema það hafi aðgang að lágmarksþjónustu og lágmarkssamskiptum í gegnum háhraðann.

Þriðja kynslóð farsíma er vissulega enn ein samskiptabyltingin. Þar erum við að horfa fram á að inn í farsímana færist verulegir gagnaflutningar og mjög hár bithraði. Þetta er augljóslega veruleg breyting. Það er athyglisvert atriði sem menn hafa staldrað við hérna í dag um hvernig stjórnvöld hyggist tryggja slíka þjónustu dreifðu byggðunum og litlu þéttbýlisþorpunum sem eru undir einhverju sem markaðurinn skilgreinir sem arðvænlegt að setja upp netið hjá.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Eftir því sem auknar kröfur eru gerðar um útbreiðslu á strjálbýlum svæðum hækkar kostnaður á hvern notanda þar sem færri notendur verða um hvern sendi. Gera má ráð fyrir að markaðurinn kalli á útbreiðslu á þéttbýlisstöðum með fleiri en 2.000 íbúa sem samsvarar almennt 40–60% útbreiðslu í landshlutum.

Lagt er til að lágmarkskrafa um útbreiðslu verði 60% á hverju svæði. Ef gerðar eru enn meiri kröfur til útbreiðslu verður lítið svigrúm fyrir bjóðendur að veita viðbótarþjónustu umfram lágmarkskröfur og verður þá erfitt að gera upp á milli bjóðenda.“

Allt er þetta satt og rétt. Nú búum við þó svo vel, ef svo má segja, að við Íslendingar eigum mjög öflugt fjarskiptafyrirtæki, Símann. Um leið og við horfum fram á þessa mestu samskiptabyltingu sem þriðja kynslóð farsíma augljóslega er eru uppi umræður um að skora á hæstv. samgönguráðherra og stjórnendur Símans að tryggja öllum landsmönnum, óháð því hvar þeir búa, aðgang að háhraðatengingu eða einhverju sem er sambærilegt við hana. Það eru margar leiðir færar í því. Ekki er endilega verið að krefjast þess að menn leggi strengi í jörð heim að hverjum sveitabæ heldur getur Landssíminn tekið þátt í sömu þróun og fyrirtækin sem ég nefndi hérna áðan, eMax og Ábótinn. Þau ásamt fleirum eru að setja upp senda og varpa efni með háhraðatengingum þannig á milli bæja og auðvitað á Síminn sem þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga í samskiptum að koma að slíkri þróun eins og ég gat um hérna áðan í staðinn fyrir að fara með fjármagn sitt inn í sjónvarpsfyrirtæki og fjölmiðlafyrirtæki. Það er ekki hans hlutverk, það vitum við öll hér. Hlutverk hans er að tryggja öllum Íslendingum góða og samkeppnishæfa þjónustu við það besta sem gerist.

Þess vegna er ástæða til að nota þessa umræðu hér um leið og við tölum um hvernig við tryggjum öllum Íslendingum, þegar að því kemur, aðgengi að þessari þriðju kynslóð. Ástæða er til að beina því til hæstv. samgönguráðherra hvort menn nánast gangi út frá því að dreifbýlið muni einfaldlega sitja hjá, verði ekki með í þeirri samskiptabyltingu sem þriðja kynslóð farsíma klárlega er. Það væri mjög dapurleg byrjun á góðu máli að vera búinn að gefa sér það að af því að það er svo dýrt komi dreifbýlið til með að sitja fyrir utan þetta.

Ef við sættum okkur við þá stöðu sem er uppi í dag, að dreifbýlið hafi ekki aðgang að háhraðaneti og almennilegum samskiptum við internetið, erum við einfaldlega að segja við íbúana að þeir verði ekki með í samfélagi framtíðarinnar. Við erum að tala um að til séu að verða stéttir í dag eftir menntun og aðgengi að henni. Við erum að setja dreifbýlið í aðra stétt, í annan flokk, með því að gera því ekki kleift að taka þátt í nútímasamskiptum. Í dag lærir fólk í gegnum háhraðanet, internetið. Í dag vinnur fólk í gegnum það. Í dag skapar fólk sér tækifæri í gegnum netið og aðgengi að því. Það eru svo breyttir tímar sem betur fer.

Þarna felast einmitt kannski stærstu tækifærin fyrir landsbyggðina og dreifbýlið ef það hefur aðgengi að því. Svo er ekki í dag, því miður. Dreifðu byggðirnar hafa margar hverjar, allt of margar, ekki aðgang að öðru en gömlu símalínunum sem eru algjörlega úrelt samskiptaaðferð í dag. Gagnaflutningurinn er slíkur og samskiptin með þeim hraða og með þeim hætti að símalínutenging er algjörlega úrelt. Og það er óboðlegt að menn skuli sætta sig við það, séu að ganga inn í það núna að selja Símann, hvenær sem það nú verður gert — ríkisstjórninni hefur ekki gengið það enn sem skyldi eins og hún lagði upp með. Þegar sú sala fer fram verður að setja í samninginn stíft ákvæði sem gerir eigendum Símans í framtíðinni skylt að veita öllum Íslendingum aðgengi að einhvers konar háhraðaneti.

Ég endurtek það sem ég sagði hérna áðan að í því sambandi er ekki verið að krefjast þess að strengur sé endilega lagður í jörð heim á hvern einasta bæ, heldur eru margar aðrar lausnir mögulegar. Síminn, þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga, verður að taka þátt í að varpa háhraðanum, eftir öðrum leiðum þá og miklu ódýrari. Það er ekki hægt að bera það saman hvað það er miklu ódýrara. Þótt það sé að sjálfsögðu ekki eins gott, öruggt og pottþétt eins og strengurinn er það samt sem áður aðgengi að einhverju sem hægt er að kalla háhraða. Við erum ekki að setja fólk hjá eða afsetja það í þeirri samskiptabyltingu sem hefur átt sér stað. Eins og fram kemur í ýmsum athyglisverðum tölum í frumvarpinu er notkun Íslendinga á farsímum og nútímatækninni alveg ævintýraleg. Tíföldun frá árinu 1997, segir hérna. Íslendingar eru fljótir, og fljótari en aðrar þjóðir, að temja sér tæknina og nota hana sér til framdráttar og tækifærasköpunar.

Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. samgönguráðherra og stjórnvöld tryggi það við útbreiðslu þriðju kynslóðar farsíma að hinar dreifðustu byggðir verði ekki settar fullkomlega hjá í því sambandi. Þess vegna blandaði ég inn í umræðuna hérna áðan þeirri stöðu sem uppi er í háhraðanettengingum og hve ósanngjörn staðan er þar. Ég er ekki í neinum vafa um að hæstv. samgönguráðherra er mikill áhugamaður um öfluga og sterka landsbyggð. Ég er sannfærður um að hugur hans stendur til þess að tryggja dreifðu byggðunum aðgengi að einhverju sem gæti kallast boðlegur háhraði. Ég brýni hann mjög og beini þeim tilmælum til hans að hann gangi fram fyrir skjöldu og einbeiti sér að því að leiða þetta mál til lykta og tryggi að Síminn taki þátt í uppbyggingunni með þeim fyrirtækjum sem bjóða nú þegar sumum svæðum landsins aðgengi að háhraða í gegnum örbylgjusendi.

Það er hægt að nefna einstök svæði í því sambandi ef á þarf að halda. Ekkert mælir gegn því að þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga, Síminn, komi að þeim málum og beiti auðæfum sínum og afli til að þjónusta fólkið í landinu en ekki til að mylja undir einhverja flokksgæðinga sem eru í allt öðrum bisness en fjarskiptaflutningum. Brýni ég ráðherrann mjög til að beita sér fyrir þessu, enda væri hér um mikið þjóðþrifamál að ræða sem ég er ekki í neinum vafa um að yrði mikil sátt um á meðal Íslendinga, enda almennur vilji til þess að jafna stöðu þegnanna.

Hér er ekki um að ræða sértækar aðgerðir í neikvæðum skilningi til að þjónusta fámenn byggðarlög, heldur er verið að tala um að jafna tækifæri fólks og aðgengi að upplýsingabyltingunni svo að fólkið á þessum svæðum geti tekið þátt og skapað sér sín eigin tækifæri. Það þarf enginn að rétta því neitt upp í hendurnar. Það þarf bara að jafna leikinn og jafna aðgengi fólks að slíkum hlutum. Um það snýst þetta mál, að gera öllum Íslendingum kleift að skapa sér ný tækifæri, mennta sig, hafa atvinnu sína í gegnum tölvuna og netið heima hjá sér. Möguleikarnir þar á atvinnusköpun og menntun eru gríðarlegir. Þá er ég ekki endilega að tala um hina formlegu menntun, heldur er netið þvílíkur brunnur upplýsinga og menntunarmöguleikar miklir sé rétt á málum haldið og það rétt notað. Það er alveg endalaust og það má flytja langt mál um það.

Í framhaldi af svari samgönguráðuneytisins til mín í fyrra um það hvaða svæði á landinu hafa ekki aðgengi að háhraða hef ég lagt fram aðra fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um þetta mál. Ég spyr hann hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þessi svæði hafi með einhverjum hætti tækifæri og möguleika í gegnum aðkomu Símans til að tryggja sér aðgengi að slíku. Ég bind miklar vonir, frú forseti, við samgönguráðherra sem er eins og ég sagði áðan mikill áhugamaður og baráttumaður fyrir öflugri landsbyggð, fyrir því að Ísland verði allt í byggð og að jafnstaða Íslendinga til tækni-, samgöngu- og samskiptamála sé góð og sanngjörn.

Við erum bara að tala um sanngjarnan leik. Til þess byggjum við upp hin félagslegu jöfnunarfyrirtæki og þjónustufyrirtæki. Á sínum tíma laut samskiptafyrirtækið gamla Póstur og sími að sjálfsögðu þeim reglum en nú eru breyttir tímar og sem betur fer bullandi samkeppni á fjarskiptamarkaði. Við horfum á mjög öflug og glæsileg fyrirtæki eins og Og Vodafone hasla sér völl og það er núna með um 40% af markaðshlutdeild í farsímanotkun á Íslandi og 20–25% í heildarpakkanum. Það er uppgangur hjá mjög glæsilegu fyrirtæki. Síminn er þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga. Því ber skylda að mínu mati, frú forseti, til að koma að þessu máli með þeim hætti sem ég rakti hér áðan.

Annað sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. samgönguráðherra var um útboðs- og uppboðsleiðir. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka það. Sjálfur hef ég mjög eindregna sannfæringu fyrir því að hæstv. samgönguráðherra trampi þarna ákveðnar villigötur hvað varðar útboðsleiðina og þar sé hætta á því að fólk geti vefengt valið, þar ráði geðþótti en ekki reglur jafnræðis og sanngirni. Vísaði ég sérstaklega í leiðara Morgunblaðsins frá því í fyrra þar sem Morgunblaðið taldi leið uppboðs vænlegri en leið útboðs og brýndi hæstv. ráðherra til að fara þá fyrri. Undir þær hugmyndir hef ég tekið mjög eindregið og skorað á ráðherrann að endurskoða þessa leið.

Hér er gert ráð fyrir að þeir sem fá úthlutað rásum verði valdir í svokallaðri fegurðarsamkeppni. Það fyrirbrigði er einhvers konar hugmyndasamkeppni um þjónustu við notendur og vekur efasemdir um að rétt hafi verið á málum haldið. Það er ekki tryggt að geðþótti ráði ekki för og réttlætisreglur gildi, enda erum við að tala um úthlutun á takmörkuðum gæðum sem er mjög mikilvægt að almennar og gagnsæjar reglur gildi um þar sem ekki er búið að velja fyrir fram þá sem fá úthlutað. Ég held því ekki fram að svo sé, alls ekki. Ég ætla hæstv. ráðherranum það ekki. Hins vegar er hin leiðin heilbrigðari og eðlilegri. Þarna eru sjónarmið samkeppninnar í hávegum höfð og komið í veg fyrir að pólitískt moldviðri og uppþot skapist yfir því hverjir verða valdir. Þá verður stjórnvöldum síður brigslað um að hygla einhverjum flokksgæðingum og hampa klúbbum í kringum sig eins og auðvelt er að gera þegar útlit er fyrir að verið sé að handvelja einhverja aðila sem eru mjög handgengnir framkvæmdarvaldinu og stjórnarherrunum.

Ég er alls ekki að ætla það, því fer fjarri að ég ætli samgönguráðherra að svo verði að málum staðið. Ég vil hins vegar tryggja að komið verði í veg fyrir það og að menn fari því aðrar leiðir. Þannig eiga menn að standa að hlutum, rétt eins og með aðrar takmarkaðar auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Það er út frá því í rauninni óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra hefur ekki kosið að fara þá leið þar sem þetta hefur verið rætt oft áður og margbent á, sagði hið mikla og máttuga Morgunblað. Það hefur bent mjög ítrekað á það í skrifum sínum og í umfjöllun um fjarskiptamál, þriðju kynslóðina og útboð á þessum tíðnisviðum.

Ég held því að engum blandist hugur um að ekki sé hægt að afgreiða það sem léttvægar aðfinnslur pólitískra andstæðinga að fara aðra leið en hér er lögð til. Það eru mjög brýn og sterk sjónarmið sem knýja á um að þannig sé staðið að málum, að uppboðsleiðin sé farin en ekki útboðið og fegurðarsamkeppnin svokallaða enda svo margt sem veikir þá leið þó svo að að sjálfsögðu séu líka rök fyrir henni.

Ég held að það megi ná þeim markmiðum fram öðruvísi. Það eru vissulega dæmi um það frá Evrópulöndunum, t.d. Bretlandi og Þýskalandi, og hæstv. samgönguráðherra kom inn á í svari sínu til mín áðan, að menn hafi farið allt of geyst á sínum tíma. Það var á þeim tíma sem spennan var í algjöru hámarki í kringum samskiptabyltinguna alla og netvæðinguna. En það á alls ekki að hræða okkur frá líkt og Morgunblaðið benti á í leiðara í mars í fyrra, enda eru tímarnir mjög breyttir og mikið jafnvægi komið á í öllu háttalagi manna hvað varðar fjarskiptatæknina og fjarskiptabyltinguna og þá hagnaðarvon sem að sjálfsögðu var að finna þar og glapti marga og örugglega fyrirtækin sem buðu svo himinháar fjárhæðir í tíðnisviðin að ekki var hægt að standa undir því með nokkru móti eða ná því aftur til baka.

Nú eru breyttir tímar og engin ástæða til að ætla að þeir sem bjóða í þriðju kynslóðina hjá okkur, þegar að því kemur, gangi fram með svo glannalegum hætti að það verði fyrirtækjunum ofviða að standa undir gjaldinu og öllu saman.

Það má týna margt fleira til, en tími minn er á þrotum. Við munum að sjálfsögðu fara mjög ítarlega í málið í samgöngunefndinni og fleiri munu taka til máls í dag. Við munum vonandi ná fram gagngerum breytingum á málinu í nefndinni og ég hlakka til að heyra hvað hv. formaður nefndarinnar hefur um málið að segja. En ég hef lokið máli mínu í þessari umferð, virðulegi forseti.