131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:41]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að öryggismálin hafa verið færð til Vegagerðarinnar. Þess vegna er eðlilegt að Vegagerðin taki þau meira inn í áætlanagerð sína og forgangsröðun sem þeir hjá Vegagerðinni leggja til við Alþingi sem það síðan metur að lokum, en þeir leggi til þessa frumvinnu, það er eðlilegt. En öryggismálin eru þegar komin til þeirra.

Ég tek alveg undir sjónarmið hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, þ.e. um mikilvægi öryggisins gagnvart ferðaþjónustunni. Erlendir ferðamenn eru í auknum mæli farnir að koma og aka um á bílaleigubílum, sem mér finnst gott. Þá koma þeir á sjálfstæðan hátt og ferðast um landið og kaupa þjónustu, bensín, olíur, gistingu og margt fleira.

En ég tek líka undir það að við eigum fyrst og fremst að hugsa um aðalleiðir í byggð, að þær séu öruggar. Það er fáránlegt eins og komið hefur fram hér á þingi og einstaka þingmenn hafa verið að reyna að slá sig til riddara með að það sé orðið brýnt mál að fara að leggja uppborna hálendisvegi þvert yfir landið meðan verulega skortir á að vegir í byggð beri þá umferð sem þar er nú þegar. Það er bara ábyrgðarhluti þegar þingmenn sem vilja láta taka sig alvarlega standa að tillöguflutningi um slíkt, að menn fari að ráðast í hálendisvegi þvers og kruss um landið en vegir í byggð eru í fjársvelti. Ég tek alveg heils hugar undir þau orð hv. þm.