131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar maður horfir aðeins um öxl og skoðar söguna verður maður þess áskynja að héðan frá hinu háa Alþingi voru samþykkt ný lög um Tækniháskóla Íslands, að ég best veit, árið 2002. Þau tóku gildi um mitt það ár. Þá var sem sagt settur á stofn Tækniháskóli Íslands, háskóli atvinnulífsins eins og sagt var með miklum lúðrablæstri og söng af hálfu ríkisstjórnarinnar. Tækniskólanum gamla var breytt í háskóla og hann hélt áfram að útskrifa fólk á háskólastigi, fólk með menntun í tæknifræði, iðnfræði, meinatækni, geislafræði og rekstrarmenntun. Þannig hefur þetta verið fram á þennan dag.

Núna berast þessir fréttir um hluti sem hafa verið í burðarliðnum um nokkurn tíma, nokkurra vikna skeið alla vega. En þegar þessar fréttir berast um að sameina eigi Háskólann í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands þá hlýtur maður að staldra við og spyrja sig: Hvað hefur eiginlega gerst frá miðju ári 2002? Hefur nokkuð gerst síðan þá sem ekki var hægt að sjá fyrir m.a. á hinu háa Alþingi? Nú sat ég ekki á Alþingi þegar þessi lög voru afgreidd héðan. En hvernig stendur á því að þetta er allt í einu gert núna og hvernig stendur á því að það læðist að manni sá grunur að þetta hafi ekki verið rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna og þetta hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn? Svo á eftir að ræða þetta á hinu háa Alþingi sem betur fer segi ég. Ég reikna með að fara muni fram mjög ítarlegar umræður um þetta á hinu háa Alþingi því að nú þarf að breyta lögum ef þetta á að verða að veruleika.

Frjálslyndi flokkurinn hefur í sjálfu sér ekki hafnað því að taka skólagjöld af námi á háskólastigi, en þá erum við að tala um sérhæft háskólastig. Við leggjum hins vegar mikla áherslu á að í grunnmenntun á háskólastigi eigi að gilda jafnræði og að skólagjöldum eigi að halda í algeru lágmarki.