131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða.

109. mál
[15:07]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Í kirkjum landsins og í kirkjugörðum víða um land eru merkir gripir og minjar sem hafa mikið menningarlegt gildi fyrir okkur sem þjóð. Við vinnslu þingsályktunar minnar um Hólavallagarð var mér bent á að Fornleifavernd hafi ekki stöðugildi til að sinna málefnum kirkjugarða og kirkjuminja sem stofnuninni ber að gera samkvæmt lögum. Fornleifavernd ríkisins ber samkvæmt V. kafla þjóðminjalaga, nr. 107/2001, að ákveða friðlýsingu og varðveislu kirkjugripa í samráði við þjóðminjavörð og friðlýsa kirkjugarða og legsteina og minningarmörk í kirkjugörðum. Þá ber stofnuninni að halda skrá yfir friðlýsta gripi og minningarmörk í kirkjugörðum.

Þegar Fornleifavernd ríkisins var sett á stofn var ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til þessa hluta minjavörslunnar og svo er enn. Lausráðinn starfsmaður hefur verið að sinna þessu en ekki er fjármagn til staðar til að halda því áfram. Það sem hefur gert mögulegt að sinna þessu hingað til er að kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma og kirkjugarðaráð hafa greitt fyrir þetta starf frá 2002. Eins hefur Kjalarnesprófastsdæmi greitt fyrir skráningu á minjum 100 ára og eldri í kirkjugörðum í því prófastsdæmi. Reynt hefur verið að bæta úr þessu ástandi með því að halda fyrirlestra fyrir prófastsdæmin um skráningu og varðveislu minningarmarka og eins um skráningu og varðveislu kirkjugripa og nú er að fara af stað verkefni um öryggismál í kirkjum landsins. En eftir að landið opnaðist eins mikið og raun er er mikil hætta á að gripir hverfi úr kirkjum og þá jafnvel úr landi.

Það er mjög mikið af merkum og gömlum gripum í kirkjunum og því er mikilvægt að Fornleifavernd geti sinnt þessu verkefni sómasamlega því að hér eru ákveðin menningarverðmæti í húfi. Því spyr ég, herra forseti, hæstv. menntamálaráðherra hvort hún áformi að tryggja Fornleifavernd ríkisins það að geta sinnt skráningu og mati á minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða landsins.