131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:04]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti í ræðu sinni bendir mjög margt til þess að hér sé pólitísk spilling á ferðinni. Hv. þm. rakti það mjög vandlega hvers vegna við setjum þessar ásakanir fram og það er algerlega óásættanlegt að hæstv. ráðherra svari því til að það sé ekki svaravert. Þegar svona alvarlegar ásakanir koma fram þá verður hæstv. ráðherra að svara þeim. Hann verður að svara því hvort þessar ásakanir eiga við rök að styðjast. En allt sem við sjáum í þessu máli bendir til þess að um pólitíska spillingu sé að ræða.

Við hljótum líka að spyrja okkur hvað er verið að kaupa. Hvað er það sem verið er að kaupa? Er verið að kaupa dreifikerfið? Nei. Er verið að kaupa húsnæðið? Nei. Hvað er verið að kaupa? Það er verið að kaupa efni og maður spyr: Hefði ekki verið ódýrara fyrir Símann að ráða innkaupastjóra á Landssímann til að kaupa efni í stað þess að eyða öllum þessum fjármunum í þetta fyrirtæki? Það er verið að kaupa efni og ná tökum á fjölmiðli. Hæstv. ráðherra getur heldur ekki sagt í ljósi þess að hann er handhafi allt að 99% hlutafjár í félaginu að hann sé bara fjarstaddur og komi málið ekkert við. Ef hann er andvígur þessu máli þá lætur hann stjórnina fara. Ellegar er hann að samþykkja þetta með gjörðum sínum. Hver er ábyrgð handhafa hlutabréfsins gagnvart almenningi þegar fé er ráðstafað með þessum hætti og menn sitja og samþykkja það án þess að segja nokkurn skapaðan hlut?

Nei, virðulegi forseti, það hefur eitthvað fjarað undan eldhugum Sjálfstæðisflokksins sem eitt sinn sögðu að það ætti að einkavæða þessa hluti en ekki ríkisvæða þá og að stjórnmálamenn ættu ekki að hafa afskipti af þessum hlutum. Með þögn sinni er fjármálaráðherra í reynd að samþykkja þessi kaup og það eru ný tíðindi í þessari umræðu að það skuli vera stefna Sjálfstæðisflokksins að ríkisvæða fjölmiðlamarkaðinn.