131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:34]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þessi skýrsla skuli loks vera komin á dagskrá Alþingis. Menn sakna þess að hún hafi ekki verið rædd í vor eftir að hún var lögð fram en að hún sé rædd nú, þetta seint, er þó skárra en ekki.

Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra. Í því þingskjali sem hér hefur verið dreift er fjallað um aðrar aðgerðir stjórnvalda. Þar er fjallað um hvað verið sé að gera í iðnaðarráðuneytinu, í heilbrigðisráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Það vekur athygli mína, herra forseti, að hér er ekkert um aðrar aðgerðir í þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti að það er ekki verið að vinna í neinum öðrum aðgerðum stjórnvalda í ráðuneytum Sjálfstæðisflokksins.