131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[14:02]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skilgreint ofneyslu áfengis sem eitt mesta heilbrigðisvandamál mannkyns. Þess vegna hafa flestar þróaðar þjóðir gripið til ýmissa aðgerða gegn þeirri vá. Einn þeirra þátta er að takmarka auglýsingar eins og Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lög um. Þá ber að sjálfsögðu að hafa eftirlit með framkvæmd slíkra laga af þar til gerðum eftirlitsaðilum. En við hljótum að spyrja okkur hvort þau lög endurspegli þann veruleika sem við lifum við í dag. Hver er staðan?

Eins og fram hefur komið er bannið sniðgengið með ýmsum hætti þar sem snjallir auglýsingamenn og auglýsingastofur notfæra sér tvíræðni í myndmáli og texta þar sem bjór er auglýstur í líki pilsners og fræðileg umfjöllun fer fram um einstakar áfengistegundir, allt gert í því skyni að selja meira. Þegar við förum upp í flugstöð erum við komin í annað umhverfi. Þar blasa við auglýsingar í flugvélunum. Þá eru þær enn beinskeyttari og lúta allar að því sama, að selja meira áfengi.

Þetta er breyttur heimur. Það var auðvelt að grípa til banns þegar hér voru fáir fjölmiðlar og samskipti okkar við útlönd voru helst í kringum vorskipin. Við búum á tölvuöld þar sem ungmenni lifa og hrærast í tölvuheimi meira og minna eftirlitslaust, á sjónvarpsöld þar sem þau hafa aðgang jafnvel að tugum erlendra sjónvarpsrása. Meira að segja í svokallaðri innlendri dagskrárgerð, í íþróttaþáttum, auglýsir meðallið í enska boltanum þekkta danska bjórtegund. Við hljótum því að leiða hugann að því að taka til endurskoðunar gildandi lög sem banna þetta alveg og leggja meiri áherslu á að byggja upp sterka einstaklinga sem kunna að taka sjálfstæðar ákvarðanir og verjast slíkum auglýsingum.