131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:49]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristjáni Möller sárnaði mjög andsvar mitt í morgun og galaði svo fram í að ég varð að hækka rödd mína til að geta flutt mál mitt. Nú heyri ég að mínum ágæta félaga, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, hefur ekki líkað það heldur, að ég skyldi minna á hvernig ástandið var þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum í byrjun tíunda áratugarins.

Það var ekki nóg með að ríkissjóður væri á kúpunni. Það var ekki nóg með að öll ríkisfyrirtæki væru á kúpunni. Atvinnulífið í landinu var allt á kúpunni. Það þýðir ekkert að koma og segja að það sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Við höfðum búið við vinstri stjórnir og algjöra óáran og óstjórn árum saman. Það er einfaldlega það sem stjórnvöld hafa verið að berjast við, að ná þessu upp. Það hefur tekist bærilega eins og ég gerði grein fyrir hér í ræðu minni.

Það hefur tekist að efla atvinnulífið, m.a. með þeim skattbreytingum sem hv. þm. Kristján L. Möller gerði lítið úr, þ.e. lækkun tekjuskatts á fyrirtæki, afnámi aðstöðugjaldsins og afnámi eignarskattsins. Allt þetta hefur orðið til að byggja upp öflugt atvinnulíf í landinu. Það verður bara að hafa það þótt mönnum sárni þetta. Þetta er einfaldlega sannleikurinn.

Hv. þm. minntist á fiskveiðistjórnarkerfið sem væri rót alls ills í byggðunum. Ekki ætla ég að gerast sérstakur talsmaður eða varðhundur þess kerfis. Ég hef oft gagnrýnt ýmsa þætti þess og er ekkert alánægður með það. Hv. þm. nefndi að hér áður þegar upp kom vandi í byggðarlögum og menn misstu skipin eða fóru á hausinn hafi menn bara tekið sig saman og keypt ný skip. Það sem síðan hefur gerst er að við veiðum jafnvel helmingi minna af þorski en við gerðum á þeim árum. En þá gátu menn veitt eins og þeir vildu, keypt skip og farið að veiða.

Ég held að það ráði ekki svo miklu í þessu sambandi hvort við búum við þetta kvótakerfið eða annað. Við getum ekki lengur veitt takmarkalaust vegna þess að fiskstofnarnir þola það ekki. Hér hefur fyrst og fremst orðið sú breyting að menn reyna að halda aflanum innan skynsamlegra marka.