131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

33. mál
[18:11]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir litlu frumvarpi um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

Frumvarpið er í sjálfu sér ekki mikið að vöxtum en það getur skipt máli og tilgangurinn er fyrst og fremst sá að stuðla að betri sambúð æðarbænda og grásleppuveiðimanna, grásleppukarla, og það verður ekki gert nema breyta þessum tilteknu lögum.

Í lögunum er það þannig að frá tilteknu tímabili, þ.e. frá 15. apríl til 14. júlí má ekki án leyfis varpeiganda, þ.e. eiganda æðarvarps, leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en sem nemur 250 metrum frá stórstraumsfjörumáli. Þetta hefur í langflestum tilvikum gengið ágætlega og ekkert orðið þess valdandi að árekstrar yrðu. En allt breytist og það hefur færst í vöxt að gráslepputíminn lengist og sé ekki lengur frá 15. apríl til 14. júlí heldur hefjist 1. apríl og jafnvel sums staðar enn fyrr. Þetta hefur orðið til þess að í einstaka tilvikum, og ég undirstrika í einstaka tilvikum, hafa orðið árekstrar þar sem hagsmunir æðarbænda og grásleppuveiðimanna hafa ekki farið saman. Í þessum tilvikum þarf að búa til reglur sem tryggja að báðir aðilar geti stundað atvinnurekstur sinn í friði, að grásleppukarlinn trufli ekki æðarræktandann og æðarræktandinn sé ekki að leggja óþarfa stein í götu grásleppuveiðimannsins. Til þess að svo verði er nauðsynlegt að breyta lögunum þannig að sá tími sem er takmarkaður á lagningu grásleppuneta eða annarra neta í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en sem svarar 250 metrar frá stórstraumsfjörumáli verði lengdur. Hann verði færður frá 15. apríl fram til 1. apríl. Þannig mundi, að mínu mati, í langflestum tilvikum vera hægt að koma í veg fyrir óþarfa árekstra sem ég veit að bæði grásleppukarlar og æðarræktendur vilja vera án. Ég undirstrika að í langflestum tilvikum gengur þessi sambúð prýðilega enda eru það oft og tíðum sömu aðilarnir, sá sem stundar æðarrækt er oft líka grásleppukarl og hefur því eðlilega mjög góðan skilning á störfum hins. Í flestum tilvikum leysist þetta af sjálfu sér líka vegna þess að í báðum tilvikum eru menn að nýta náttúruna og skilja að það þarf að gera í góðri sambúð. Engu að síður þarf í þessum tilvikum að skýra umferðarreglurnar dálítið og í þessu frumvarpi er lagt til að það sé gert með þeim hætti sem ég hef þegar lýst.