131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:06]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvernig samræmist það stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og eflingu atvinnulífs í Dalabyggð og nærsveitum að láta loka sláturhúsinu í Búðardal?“

Hv. þm. Jón Bjarnason þarf að átta sig á því að sláturhúsinu í Búðardal var ekki lokað heldur uppfyllti það ekki kröfur um löggildingu eða sláturleyfi sem ráðuneytið getur ekki gefið út fyrr en að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Það eru lög frá Alþingi.

Þann 1. janúar 2004 tók gildi ný reglugerð, nr. 461/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, en hún er sett með stoð í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

Í II. kafla reglugerðarinnar um löggildingu, 3. gr., segir svo:

„Landbúnaðarráðuneytið löggildir sláturhús, kjötgeymslur og kjötvinnslustöðvar að fengnum meðmælum yfirdýralæknis til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði laga nr. 96/1997.“

Í III. kafla sömu reglugerðar um starfsleyfi, 6. gr., segir m.a. svo:

„Rekstraraðili sláturhúss skal hafa sláturleyfi frá embætti yfirdýralæknis, sbr. 20. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Sækja skal um sláturleyfi áður en starfsemi hefst og þegar eigendaskipti verða.“

Í bréfi ráðuneytisins 25. september 2003 heimilaði ráðuneytið afurðastöðinni í Búðardal slátrun á sauðfé á síðastliðnu hausti að tillögu embættis yfirdýralæknis en einnig sagði í bréfinu:

„Enn fremur leggur embættið til að ekki verði heimiluð aftur slátrun í húsinu fyrr en að lokið er að fullu þeim endurbótum sem gera þarf á sláturhúsinu svo það uppfylli kröfur reglugerðar nr. 641/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, og reglugerðar nr. 40/1999, um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötpökkunarstöðvum þeirra.“

Þessum endurbótum var ekki sinnt að mati yfirdýralæknis og því voru ekki forsendur til þess fyrir ráðuneytið að löggilda sláturhúsið samkvæmt núgildandi reglugerð.

Hv. þm. spyr einnig:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum sem stuðla munu að áframhaldandi rekstri sláturhúss og kjötvinnslu í Búðardal?“

Það er ekki í höndum landbúnaðarráðherra að taka ákvörðun um hvort verði áframhaldandi rekstur á sláturvinnslu og kjötvinnslu í Búðardal. Sú ákvörðun er fyrst og fremst í höndum eigenda og stjórnenda Dalalambs. Þeir verða hins vegar að uppfylla núgildandi lög og reglugerðir eins og gerð er krafa um hvað sláturhúsin varðar.

Hinn 20. júlí eða svo gengu fulltrúar Dalamanna á minn fund eftir margar raunir undangengin ár. Sveitarfélagið tapaði 20 milljónum á síðasta hausti. Þar áður urðu þeir fyrir miklu áfalli, bæði sveitarfélagið og ekki síður bændur í miklum afföllum. Þeir komu til mín til þess að spyrja mig og leita ráða hvort þeir ættu að halda áfram slátrun.

Ég sagði að það væri þeirra mat. Ég ætlaði hvorki að hvetja þá né letja. Þeir yrðu sjálfir að taka ákvarðanir um hvað þeir vildu gera við sína peninga. Ég gæti heils hugar stutt það sem landbúnaðarráðherra að það væri slátrað í Búðardal og kannski væri það mikilvægt fyrir Vesturland allt að það væri gert. En þeir yrðu að gera það á sína ábyrgð.

Ég var því hreinn og heiðarlegur en bætti við: Þið verðið að átta ykkur á því að nýjar og hertar kröfur hafa verið gerðar til allra sláturhúsa í landinu og þau munu nú öll uppfylla reglugerð sem sett hefur verið um málið. Þið verðið því eins og aðrir að ganga til verka og hafið gert áætlanir um að endurbyggja ykkar hús upp á 50, 60 milljónir — sem er rétt hjá hv. þingmanni að Byggðastofnun á — en það verðið þið að ganga í og hafa klárt fyrir haustið.

Þessum vinum mínum í Dalasýslu hef ég verið heiðarlegur í tilsvörum, tekið þeim vel og sagt þeim að þeir verði eins og aðrir að ganga til verka í sínum húsum. Það er ekki mitt verk að segja Byggðastofnun fyrir verkum í hvað hún leggur fjármagn sitt, en þetta hús á hún.

Hér hefur oft verið gagnrýnd úrelding sláturhúsanna en ég fann það á þessum fulltrúum Dalamanna, þeir sögðu mér það sjálfir eins og margir hafa gert, að sú úrelding sem átt hefur sér stað til þess að skapa bændum betri tekjur og lægri sláturkostnað hafi skilað þeim árangri að verð mundi hækka í haust og betri staða blasti við á markaði.

Ég vil hafa það hér á hreinu að sláturhúsinu hefur ekki verið lokað. Þeir hafa fullar heimildir samkvæmt lögum og reglugerðum til að klára sitt hús en þeir verða að gera það í tíma til þess að fá leyfið.