131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Styrkur til loðdýraræktar.

195. mál
[14:28]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Loðdýraræktin í landinu hefur átt í afskaplega miklum erfiðleikum í gegnum tíðina eins og við flest þekkjum sem hér sitjum og gerum okkur grein fyrir. Kannski er ekki undarlegt að upp séu komnar hugmyndir um að styrkja þá grein sérstaklega til einhvers tíma. Við hljótum þó eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson var að tala um að gera ráð fyrir því að sá stuðningur verði með þeim hætti að allir standi jafnir.

Hæstv. landbúnaðarráðherra upplýsti okkur um að svo væri. Ég hjó þó eftir því í svari hæstv. ráðherra að hann sagði að allir gætu sótt um og þar af leiðandi setið við sama borð.

Ég er að velta fyrir mér, frú forseti, hvort einhverjar úthlutunarreglur séu fyrir fram niður settar þannig að maður geti gert sér grein fyrir því hvort allir standi jafnir. Er kannski í úthlutunarreglum eitthvað um að þeir sem einkareki fóðurstöðvar eigi ekki möguleika á styrk? Það getur verið jafnræði því að allir geta sótt um en ég spyr: Eru úthlutunarreglur gagnsæjar þeim sem sækja um?