131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:41]

Böðvar Jónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að niðurfelling eða lækkun stimpilgjalda mun gagnast öllum íbúðarkaupendum en lækkun tekjuskattshlutfallsins gagnast mun fleirum. Þess vegna er það skoðun mín að lækkun á tekjuskattsstofninum eigi að ganga fyrir í lækkunum á hlutföllum í skattamálum. Það er mjög mikilvægt að það sé gert númer eitt, eins og fram hefur komið, og ýmsar aðrar skattalækkanir verði skoðaðar í framhaldi af því.

Hvað varðar hækkun hámarkslána ítreka ég það sem ég hef áður sagt að ég tel Íbúðalánasjóð vera í yfirburðastöðu á þessum markaði og hann verður að gæta hófs í því að berja ekki niður samkeppni. Þess vegna sagði ég að mér finnst að fara þurfi varlega í að hækka hámarksfjárhæðina og finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að miðað sé við 13 milljónir í upphafi árs. Vissulega hlýtur það þó að verða skoðað af ráðherra, ráðuneytismönnum og fulltrúum í Íbúðalánasjóði hvort ekki sé eðlilegt að hún fylgi svo eðlilegri þróun og hækkun á íbúðamarkaði til frambúðar.