131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:47]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Bara til þess að koma í veg fyrir misskilning þá var ég ekki að gagnrýna aðra ráðherra fyrir að vera ekki hér á staðnum vegna þess að ég tel ekki að þeir í sjálfu sér hafi sérstakar skyldur þegar við fjöllum um byggðamál. Þá er ráðherrann sem fer með byggðamál til andsvara.

En hvað árangur varðar tel ég fjölgun á Austurlandi t.d. ákveðinn árangur og fjölgun á Suðurlandi en hins vegar fækkun á höfuðborgarsvæðinu núna eins og á síðasta missiri sem mælt var. Ég er ekki að gera neitt allt of mikið úr þessu en mér finnst þetta — og á ferðum mínum um landið hefur mér fundist líka að andrúmsloftið sé þannig að fólk sé frekar jákvæðara og tilbúið að berjast fyrir eflingu byggðarlaga sinna. Það er mjög mikilvægt.

Það er þetta sem ég meina þegar ég segi að það hafi orðið árangur.