131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:53]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með það að kennarar skyldu fella miðlunartillögu ríkissáttasemjara í gær en það kom mér ekki á óvart. Ekki vegna þess að tillagan sem slík hefði verið slæm, heldur vegna þess að í Fréttablaðinu birtist á laugardaginn á forsíðu afar ótímabær og óábyrg yfirlýsing frá æðsta yfirmanni skólamála hér í Reykjavík, Stefáni Jóni Hafstein, um það að sveitarfélögin væru með útspil uppi í erminni ef kennarar mundu fella tillöguna.

Hvað gekk manninum eiginlega til að gefa út slíka yfirlýsingu? Hvernig dettur leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn í hug að beinlínis hvetja kennara til að fella tillöguna áður en atkvæðagreiðslu um hana er lokið og slá sig til riddara með því að tilkynna kennurum að þeirra bíði eitthvað betra ef þeir felli tillöguna? Hvernig gátu kennarar túlkað þessi orð Stefáns Jóns Hafsteins öðruvísi en svo að þeirra biði betra tilboð ef þeir felldu tillöguna?

Þó svo að talsmenn annarra sveitarfélaga hafi fram að þessu verið hógværir í yfirlýsingum sínum í málinu er ekki við því að búast að samningar náist þegar forsvarsmenn sveitarfélaganna tala með þessum hætti.

Frú forseti. Sú staða sem komin er upp í kennaradeilunni er algjörlega óþolandi fyrir skólabörn, foreldra, þjóðfélagið og almenning allan. Tjónið er orðið mikið og ég lýsi fullkominni ábyrgð á hendur fulltrúum sveitarfélaganna og forustu Kennarasambandsins á því hvernig staða málsins er.

Það þýðir ekkert að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að gera ekki neitt. Sveitarfélögin vissu alveg þegar þau fjölguðu kennurum og starfsfólki skólanna um tugi prósenta að það mundi kosta eitthvað. Kennarar vita líka að ef gengið verður að kröfum þeirra mun efnahagslíf hér brenna yfir og það er hætt við því að kjarasamningar losni eins og ASÍ hefur varað við. Menn verða að setjast niður og semja og ég bendi kennurum og forsvarsmönnum Kennarasambandsins á það að ef ríkið grípur inn í þessa deilu með lagasetningu verður það engum til góðs, (Forseti hringir.) hvorki kennurum né þjóðfélaginu. Allir munu tapa á slíkum gjörningi.