131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[14:56]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir þessa fyrirspurn um tilraun með vinnustaðanám, sem var í tveimur liðum.

Áður en ég kem efnislega að því svari vil ég sérstaklega undirstrika að til að mynda varðandi fyrirhugaða styttingu námstíma til stúdentsprófs hefur sérstök áhersla verið lögð á það af minni hálfu að farið verði sérstaklega yfir starfsnámið, yfir iðnnámið, varðandi styttingu námstíma til stúdentsprófs. Það er ekki eingöngu það að ég hafi lagt áherslu á að við eigum að líta á allt skólakerfið sem eina heild frá leikskóla og upp úr og reyna að auka samfelluna á milli skólastiga heldur hefur sérstök áhersla verið lögð á það af minni hálfu að auka og efla starfsnámið og sérstaklega að nýta tækifærið í tengslum við fyrirhugaða styttingu námstíma til stúdentsprófs, þannig að þegar farið verður yfir námskrárnar þegar þar að kemur verður sérstök áhersla lögð á einmitt þessa tegund náms.

Eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á eru ákvæði um starfsnám í 25. gr. laga um framhaldsskóla frá 1996. Þar skiptist starfsnámið á skóla og vinnustaði eða fer eingöngu fram í skóla. Með vinnustaðanámi er átt við þann hluta starfsnáms á framhaldsskólastigi sem fer fram úti í fyrirtækjunum sem taka nemendur að sér.

Í desember 2002 samþykkti ríkisstjórnin tillögu þáv. menntamálaráðherra um að ráðast í tilraun um vinnustaðanám. Tilrauninni var ætlað að leiða í ljós hvort unnt væri að skipuleggja vinnustaðanám með öðrum hætti en nú er og jafnframt styrkja það og efla með aukinni þátttöku og ábyrgð fyrirtækja. Skipaður var sérstakur starfshópur til þess að hafa yfirumsjón með tilrauninni og var samið við tilteknar fræðslustofnanir um framkvæmdina.

Ég skrifaði síðan undir þessa tilraun í mars á þessu ári ásamt þeim aðilum sem eiga hlut að máli. Tilraunin tekur til sex starfsgreina og stendur yfir þetta ár og fram til loka ársins 2005. Þátttakendur eru fyrirtæki og nemendur í hársnyrtiiðn, kjötiðn, prentsmíði, vélvirkjun, sjúkraliðar og loks nemendur í diplómanámi fyrir verslunarstjóra við Bifröst.

Að mati ráðuneytisins fór tilraunin vel af stað og hún lofar góðu um framhaldið. En ekki verða dregnar ályktanir né teknar ákvarðanir um framtíðina fyrr en niðurstöður sérstakrar úttektar á tilrauninni liggja fyrir en það verður væntanlega ekki fyrr en á fyrri hluta árs 2006 þar sem tilraunin rennur út við lok ársins 2005.

Meðal þess sem skoðað verður í tengslum við tilraunina er fjármögnun vinnustaðanáms, þ.e. hvort unnt sé að finna leið til þess að umbuna fyrirtækjum sem axla þá ábyrgð að taka nemendur til náms innan sinna vébanda og annast síðan kennslu þeirra og leiðbeiningu á vinnustað. Starfshópurinn sem fyrr var nefndur hefur skoðað ýmsar leiðir í þessum efnum og skilað mér áfangaskýrslu um hugmyndir sínar en endanlegar tillögur verða fyrst gerðar þegar niðurstöður tilraunanna liggja fyrir. Miðað við fyrstu hugmyndir manna er ljóst að eindreginn vilji er til þess að auka ábyrgð fyrirtækjanna í vinnustaðanámi og stuðla að markvissari kennslu og þá þarf að skoða hvort ríkið getur komið til móts við þau fyrirtæki sem sýna metnað til þess að standa vel að kennslu nemenda sinna. Fari svo að tilraunin geti af sér nýtt fyrirkomulag vinnustaðanáms á Íslandi þá er ljóst að mínu mati að þar er um tímamótaviðburð að ræða og gerbreytingu á tilhögun starfsnáms sem viðgengist hefur alla tuttugustu öldina hér á landi.