131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Háhraðatengingar.

188. mál
[15:46]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur dögum lögðum við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, fram þingsályktunartillögu þar sem kveðið er á um að samgönguráðherra hefjist þegar handa við að smíða frumvarp sem tryggi öllum landsmönnum aðgang að háhraðaneti og samgönguráðherra geri Símanum skylt að tryggja slíka þjónustu. Um er að ræða meiri háttar hagsmunamál fyrir íbúa hinna dreifðu byggða og minni þéttbýlisstaða en eins og staðan er nú eru þeir settir hjá í aðgengi að upplýsingatækninni þótt háhraðanettenging flokkist sem grunnþjónusta í nútímasamfélaginu, rétt eins og orkuveita og símaþjónusta.

Í skriflegu svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni á síðasta löggjafarþingi kemur fram að yfir 22 þúsund Íslendinga hafa ekki slíka tengingu þar sem Síminn metur það svo að ekki sé arðvænlegt að leggja ADSL-tengingar í byggðarlögum þar sem íbúar eru færri en 150 talsins, hvað þá í dreifðari byggðir sveitanna. Þarna ráða gróðasjónarmið för en inntak tillögu okkar og fyrirspurnar minnar er hins vegar að það sé skylda samfélagsins að tryggja öllum Íslendingum aðgang að háhraðanettenginu óháð búsetu. Án þess er ekki um að ræða jafnstöðu við aðra í þátttöku í nútímasamfélagi, í fjarnámi, í fjarvinnslu og hvers konar aðgengi að upplýsingum og afþreyingu gegnum netið.

Stjórnvöld eiga að mínu mati að skylda Símann til að veita eða hafa milligöngu um að veita slíka þjónustu gegnum örbylgju eða beinar tengingar. Til staðar eru mörg góð fyrirtæki eins og eMax, Ábótinn og fleiri sem veita slíka þjónustu gegnum örbylgjusamband í mörgum dreifðari byggðum. Við eigum að nýta þá þjónustu fyrirtækjanna fyrir milligöngu Símans. Hið opinbera á að skylda Símann til að tryggja þjónustuna eða hafa milligöngu þar um.

Á meðan svo háttar að mikill fjöldi Íslendinga býr ekki við háhraðatengingar og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni eru þær byggðir ósamkeppnishæfar þegar kemur að vali fólks og fyrirtækja til búsetu. Byggðirnar eru annars flokks í þessu tilliti og íbúum þeirra mismunað af hálfu samfélagsins, hafi íbúarnir ekki aðgang að háhraðanettengingu.

Þjóðin á Símann og Síminn er eitt öflugasta og ríkasta fyrirtæki landsins. Hann á að sjálfsögðu að beita afli sínu og þrótti til að tryggja öllum landsmönnum möguleika á háhraðanettengingu í stað þess að vasast t.d. með fjármuni sína í áhætturekstri í fjölmiðlun og öðru, ef valið stendur á milli þess.

Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

„Stendur til að tryggja íbúum dreifbýlis og þeirra þéttbýlisstaða, sem eru undir íbúamörkunum sem Síminn setur um lagningu ADSL eða háhraðatenginga, aðgang að háhraðatengingu?“