131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnutilhögun unglækna.

158. mál
[18:19]

Sigríður Ingvarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þróunin í mörgum kjarasamningum hefur verið sú að tryggja launþegum svokallaða lágmarkshvíld á milli vinnudaga. Eins þekkjum við nýlega tilhögun sem tekin hefur verið upp hjá atvinnubílstjórum með þetta í huga. Við vitum að mikið vinnuálag, svefnleysi og þreyta getur leitt til einbeitingarleysis sem síðar getur leitt til mistaka í starfi. Óneitanlega eru mistök í starfi læknastéttarinnar og afleiðingar af þeirra völdum sýnu alvarlegri en mistök hjá flestum öðrum starfsstéttum. Unglæknar eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að berjast fyrir því að fá að hvílast á milli vakta á heilbrigðisstofnunum landsins. Við státum af frábæru heilbrigðiskerfi hér á landi og við skulum viðhalda því.