131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:38]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkismál. Í máli hans kom skýrt fram að Ísland stendur frammi fyrir mörgum áskorunum og tækifærum í samfélagi þjóðanna. Mig langar sérstaklega að gera þróunarsamvinnuna að umtalsefni en þar hafa átt sér stað afar jákvæðar breytingar að undanförnu.

Á undanförnum árum hefur Ísland aukið verulega framlög sín til þróunarsamvinnu en einnig til friðargæslumála, alþjóðlegrar hjálparstarfsemi og alþjóðastofnana. Ég fagna auknum framlögum til þessara málaflokka og tel að þessum fjármunum sé vel varið. Ísland er vel stætt ríki og það er siðferðileg skylda okkar í samfélagi þjóðanna að leggja okkar af mörkum.

Mig langar að setja þessi mál í fjárhagslegt samhengi. Ef litið er til þróunar útgjalda frá árinu 2005 hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hækkað úr tæplega 300 millj. kr. í tæplega 700 millj. kr. Það er rúmlega tvöföld hækkun. Framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi hafa hækkað úr 164 millj. kr. í tæplega 400 millj. kr. en það er meira en tvöföldun. Þá munar og verulega um stóraukin framlög til Þróunarsjóðs EFTA en framlög til hans hafa hækkað úr tæplega 100 millj. kr. í tæplega 500 millj. kr., sem er fimmföldun. Til Íslensku friðargæslunnar, sem hefur verið stórefld, hafa framlög aukist úr 136 millj. í rúmlega 460 millj. kr. á þessum árum. Þetta er meira en þreföld hækkun. Á árinu 2005 er gert ráð fyrir að framlög til þróunarmála verði um 0,21% af vergri landsframleiðslu, eins og hér hefur komið fram. Þannig hafa framlögin til þróunarmála nærri þrefaldast á fimm árum og stefnt er að frekari aukningu á næstu árum.

Ég tel einnig vert að draga fram að það er sérstakt fagnaðarefni að nú er í fyrsta skipti gert ráð fyrir framlögum af Íslands hálfu í Alþjóðaumhverfissjóðinn, GEF, en Ísland hefur verið eina vestræna ríkið sem ekki hefur verið aðili að sjóðnum um langt bil. Þessi sjóður styrkir sérstaklega verkefni í þróunarlöndunum sem hafa hnattræna skírskotun. Þau verkefni eru afar mikilvæg gagnvart vörnum gegn mengun sjávar, ósonlaginu og þrávirkum lífrænum efnum, svo eitthvað sé nefnt. En við Íslendingar höfum í alþjóðastarfi einmitt lagt mikla áherslu á umhverfismál, á varnir gegn mengun sjávar og loftslagsbreytingar. Því var mjög mikilvægt að við yrðum aðilar að Alþjóðaumhverfissjóðnum. Það var eiginlega að verða óbærilegt að vera ekki aðilar að honum. Ég fagna mjög því að það skref hafi verið tekið.

Varðandi friðargæsluna þá er hún tiltölulega ný. Hún var formlega stofnuð 10. september 2001 þótt segja megi að við höfum sinnt friðargæslustörfum a.m.k. frá 1994. Hins vegar er alveg ljóst að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá stofnun Íslensku friðargæslunnar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við getum að mínu mati verið stolt af henni. Þetta eru mjög krefjandi verkefni sem hún sinnir. Núna eru 25 manns við störf og um 200 manns á viðbragðslista og áætlað er að árið 2006 verði 50 manns við friðargæslustörf fyrir hönd okkar Íslendinga.

Friðargæslan er erfið, þetta er metnaðarfullt verkefni en við höfum getið okkur gott orð á alþjóðavettvangi fyrir framlag okkar. Það kom því, virðulegi forseti, verulega á óvart að á þriðjudag birtist frétt í Fréttablaðinu um könnun sem gerð var á viðhorfi almennings til friðargæslu. Af þeirri könnun mátti ráða að ríflega helmingur þjóðarinnar væri hlynntur þátttöku Íslands í friðargæslu en tæp 60% hennar teldi að Íslenska friðargæslan væri her, að þar væru hermenn. Þessi niðurstaða hlýtur að koma verulega á óvart og vakna spurningar um hvort kynning á starfseminni hafi verið nægjanleg.

Ljóst er að okkur Íslendingum ber að leggja okkar af mörkum til að varðveita frið og öryggi í heiminum og til að hjálpa við uppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum. Við höfum metið það svo að við náum mestum árangri með borgaralegri friðargæslu. Þar sinna einstaklingar sérhæfðum störfum, læknar, hjúkrunarfræðingar, flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn og lögreglumenn svo einhver dæmi séu tekin. Það er ljóst að þetta eru borgaralegir starfsmenn en ekki hermenn. Þeir eiga ekki að blanda sér í átök á svæðum sem þeir vinna á. Auðvitað eru þetta áhættusöm störf þannig að það hefur verið talið nauðsynlegt að láta þá bera vopn en miðað við þessa könnun tel ég að upplýsa þurfi þjóðina um störf friðargæslunnar.

Varðandi Írak þá hafa málefni Íraka verið mjög til umræðu á vettvangi stjórnmálanna, í þinginu, eins og við höfum heyrt í morgun, í utanríkisnefnd og í samfélaginu öllu. Ég ætla ekki að rekja hér allan aðdragandann. Hér hafa farið fram miklar umræður á milli hæstv. utanríkisráðherra og fulltrúa stjórnarandstöðunnar um það mál. En eins og allir vita er stríð neyðarúrræði og í stríð fer enginn nema að vel ígrunduðu máli. Ég tel þá hugmynd sem hefur komið upp, að Ísland taki sig nú af lista hinna staðföstu þjóða, algerlega fráleita.

Það er ljóst að hið eina sem stendur eftir varðandi hlutverk þeirra sem eru á lista hinna staðföstu þjóða er uppbyggingarstarf í Írak. Það blasir við hve mikilvægt verður að fara í það uppbyggingarstarf. Það þjónar engum tilgangi að taka Ísland af lista hinna staðföstu þjóða og skorast þannig undan merkjum við uppbyggingarstarfið.

Virðulegi forseti. Varðandi Evrópusamstarfið er alveg ljóst að þátttaka okkar í EES-samningnum hefur reynst afar farsæl. Það voru miklar deilur um það mál í samfélaginu á sínum tíma. Sitt sýndist hverjum en ég held að sagan sýni að það var rétt að gerast aðili að EES.

Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, með stækkun ESB, mun vafalaust hafa mikil áhrif eða a.m.k. einhver áhrif á Ísland. Markaður okkar stækkar töluvert og þar opnast ný tækifæri. Þegar stækkunarsamningarnir voru samþykktir ákváðu íslensk stjórnvöld að beita aðlögunarákvæðum stækkunarsamningsins varðandi sameiginlegan vinnumarkað líkt og flest önnur EES-ríki gerðu. Það er rétt að minna á að sá tími styttist nú óðum sem aðlögunarákvæðin taka til. Því þarf að halda vel á spöðunum við að undirbúa vinnumarkaðinn undir komu vinnuafls af öllu EES-svæðinu.

Um aðild eða tengsl Íslands og Evrópusambandsins í framtíðinni er mjög erfitt að spá. Evrópusambandið stendur á miklum krossgötum eftir stækkunina og fáa rennir í grun hvað er í vændum. Vandræðagangurinn við skipun nýrrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er athyglisverður. Vonandi er hann ekki fyrirboði þess sem koma skal í Evrópusamstarfinu. Tyrkland og Rúmenía eiga í viðræðum við ESB. Þar er því margt í deiglunni og ekki gott að spá fyrir um hvernig Evrópusambandið mun þróast í framtíðinni og hvernig gengur að stækka það.

Staða okkar gagnvart ESB er um margt sérstök þar sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir því að við séum hluti af innri markaðnum. En við höfum þó minni áhrif á mótun löggjafar sem varðar markaðinn en löndin sem eru innan ESB. Því má segja að það sé alveg greinilegur lýðræðishalli á þátttöku okkar í þessu Evrópusamstarfi.

Það er líka ljóst, virðulegur forseti, að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins eins og hún er í dag er eitt af því sem við höfum haft áhyggjur af. Meginfiskstofnar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu geta ekki talist sameiginleg auðlind allra Evrópuríkja frekar en skógarnir í Finnlandi eða olíuauðlindir á bresku landgrunni. Mér finnst því alveg koma til athugunar að rætt verði meira um þá leið sem hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson reifaði fyrir nokkrum árum, þegar hann var utanríkisráðherra, í svokallaðri Berlínarræðu, þ.e. hvort hægt væri að sjá fyrir sér að Norður-Atlantshafið yrði skilgreint utan hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu sem sérstakt svæði og að þar giltu sérstakar reglur þannig að ekki væri um sérstaka undanþágu að ræða varðandi þetta mál heldur yrði svæðið yrði skilgreint sem sérstakt svæði þar sem ríki í Norður-Atlantshafinu tækju ákvarðanir gagnvart auðlindum sínum á því svæði.

Það er mjög óljóst hvernig stefnir með Evrópusamstarfið. En ég velti því upp að mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd sem kom fram um Berlínarræðunni.

Varðandi öryggis- og varnarmál þá er alveg ljóst að málið er á forræði hæstv. utanríkisráðherra og gera má ráð fyrir því að núna eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum — þær eru afstaðnar núna — verði hægt að halda þessum viðræðum áfram. Það er óásættanlegt að hafa varnarmál landsins í uppnámi um langa tíð. Alla vega upplifa mjög margir það þannig að þessi mál séu í uppnámi. Það er nú sjálfsagt orðum aukið. En ég er sannfærð um að hæstv. utanríkisráðherra muni leiða málið til lykta þannig að varnir landsins verði tryggðar. Ég hef mikla trú á því og veit að hann er í góðu sambandi við þá sem skipta miklu máli í þessu sambandi í Bandaríkjunum.

Við Íslendingar höfum látið alþjóðamál til okkar taka í stöðugt meira mæli og það endurspeglast m.a. í því að við höfum áhuga á að taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það ráð gegnir lykilhlutverki í varðveislu friðar og öryggis í heiminum. Ráðið er virkara og pólitískt vægi þess er meira en áður þannig að eðlilegt er að Ísland sækist eftir sæti í ráðinu og axli þar ábyrgð sem hin Norðurlöndin hafa gert. Við njótum núna stuðnings hinna Norðurlandanna við framboðið. Kosningabaráttan verður örugglega mjög erfið. Hún verður líka lærdómsrík. Vonandi tekst okkur að ná þessu sæti en það er ekkert gefið í þeim efnum.

Virðulegur forseti. Ég vil líka gera að umtalsefni hér tengsl umhverfismála og utanríkismála. Eins og allir vita virðir mengun ekki landamæri. Íslendingar hafa lagt mjög mikla áherslu á varnir gegn mengun sjávar og varnir gegn loftslagsbreytingum á alþjóðavettvangi í umhverfismálum. Núna erum við að reyna að vinna á alþjóðavettvangi í anda samþykkta Jóhannesarborgarfundarins um að stórefla svæðabundið samstarf til þess að verja hreinleika heimshafanna. Þar má sérstaklega benda á samstarf um Norður-Atlantshafið sem Íslendingar áttu að vissu leyti frumkvæði að á sínum tíma. Það er búið að halda nokkrar Norður-Atlantshafsráðstefnur þar sem lönd ræða saman, lönd í kringum Norður-Atlantshafið, svo sem Norðurlönd, Skotland og eyjarnar og Kanada, svæði í Kanada ræða hvernig hægt sé að verja hreinleika hafsins. Það er alveg ljóst að Norður-Atlantshafið er með hreinustu höfum í heiminum núna. En ógnir steðja að því. Þessar ógnir eru loftslagsbreytingar sem geta haft áhrif á straumana. Það eru líka þrávirk lífræn efni sem hafa áhrif á heilbrigði manna og dýra, þungmálmar, kvikasilfursmengun, olíumengun og geislamengun, m.a. frá Sellafield. Með samstilltu átaki hefur tekist að ná áfangasigrum. Ég bendi sérstaklega á Sellafield í því sambandi.

Varðandi loftslagsbreytingar er alveg ljóst að Kyoto-bókunin er eina kerfið sem við höfum núna til þess að takast á við þær. Frá iðnbyltingunni hefur þéttni gróðurhúsalofttegunda aukist um 30% í andrúmsloftinu. Alþjóðavísindanefnd loftslagssamningsins telur að á næstu 100 árum muni hitastig hækka um 1,4–5,8 gráður m.a. vegna þessarar losunar. Það er ljóst að Ísland sem var reyndar fyrsta norræna ríkið sem fullgilti Kyoto-bókunina á að beita sér á erlendum vettvangi, á alþjóðavettvangi og innan Norðurskautsráðsins þar sem við gegnum formennsku núna. Við eigum að beita okkur að því að hafa áhrif á Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn eru stærsti einstaki losarinn. Þeir eru ábyrgir fyrir um 36% losunar á gróðurhúsalofttegundum. Þeir eru ekki aðilar að Kyoto-bókuninni og hafa farið frá henni. Það er mjög alvarlegt þannig að ég tel að Íslendingar eigi að gera sitt til að ræða við Bandaríkjamenn um hve mikilvægt sé að þeir komi að þessu borði.

Í hinni stóru skýrslu sem norðurskautssamstarfið er að kynna þessa dagana á ráðstefnu á Íslandi sjáum við að hitastig hækkar tvöfalt hraðar á norðurheimskautssvæðinu en á hnattræna vísu. Þetta veldur mjög miklum breytingum og mun valda mjög miklum breytingum. Sjávaryfirborð mun hækka. Við höfum nú þegar brugðist við því með því að hafa 20 sm hærra þil í höfnum sem við erum að byggja. Freðmýrar munu færast norðar. Gróðurinn mun færast líka norðar. Íbúar á þessum svæðum verða fyrir 30% meiri geislavirkni frá útfjólubláum geislum og svona má lengi telja. Þetta er alvarleg staða.

Ég vil ljúka máli mínu á því að minnast á norrænt samstarf, virðulegur forseti. Þar höfum við Íslendingar spilað stóra rullu. Við höfum verið í formennsku þar á þessu ári í norræna ráðherraráðinu og ég bendi á að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er nýkjörin forseti Norðurlandaráðs. Ég óska henni til hamingju með það. Íslendingar hafa lagt áherslu á mjög stór og mikilvæg mál í sinni formennskutíð, m.a. hvernig eigi að efla lýðræði í framtíðinni, hvernig við viljum efla samstarfið á Vestur-Norðurlöndunum og hvernig við viljum draga úr landamærahindrunum milli norrænna ríkja. Ég tel mjög mikilvægt að draga það fram í þessari umræðu að norrænt samstarf er einn af hornsteinum stefnu okkar í utanríkismálum. Þar erum við að vinna að mörgum verkefnum og mjög mikilvægt er að við Íslendingar stöndum afar sterkan vörð um það samstarf.