131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:26]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ákaflega yfirgripsmikla ræðu sem undirstrikar þá miklu breidd sem er í verkefnum íslensku utanríkisþjónustunnar. Þá ber ekki síður að undirstrika þau afdráttarlausu sjónarmið sem hæstv. utanríkisráðherra setti fram í sinni góðu ræðu og þeirri skýru stefnu sem er greinilega í utanríkismálum okkar Íslendinga.

Það er athyglisvert að varnarmálin eru ofarlega á baugi umræðunnar. Það er auðvitað viðfangsefni sem þarf að leiða til lykta og ég vil í því sambandi sérstaklega fagna því frumkvæði sem hæstv. utanríkisráðherra, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, sýndi með viðræðum við George Bush Bandaríkjaforseta og þeim viðræðum sem boðaðar hafa verið á þriðjudaginn kemur við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Colin Powell, á degi hinnar íslensku tungu. Það er mikilvægt að ljúka þeim málum sem enn þarf að ræða við þessa bandalags- og vinaþjóð okkar. Við höfum fylgt farsælli stefnu í varnarmálum undanfarin 55 ár og þær gömlu deilur sem voru mjög áberandi í þeirri umræðu eru að langmestu leyti að baki. Það er mjög almennur stuðningur við stefnu okkar í varnarmálum hér á landi og athyglisvert að hlusta á þær umræður sem þegar hafa farið fram sem sýna okkur að tveir af þremur stjórnarandstöðuflokkum sem sitja á Alþingi og hafa rætt þessi mál í umræðunni hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hér sé ekki nægjanlegur varnarviðbúnaður. Þeir krefjast meiri varnarviðbúnaðar. Þetta hefðu einhvern tíma þótt gríðarleg tíðindi í þeim miklu umræðum sem fram hafa farið um varnarmál um áratuga skeið hér á landi.

Það er athyglisvert að ræða málin í þessu samhengi og ég vil í því sambandi aðeins nefna að fyrr á þessu ári heimsótti okkur breski Evrópumálaráðherrann Dennis MacShane. Hann varpaði að mínu mati ákaflega athyglisverðu ljósi á varnarmálin í því samhengi sem við ræðum um. Hann benti á mikilvægi þess fyrir Evrópuþjóðirnar að rækta Atlantshafstengslin. Það þýðir að Evrópuþjóðir þurfa að eiga gott og náið samstarf við Bandaríkin. Þetta er og hefur verið hornsteinn samvinnu Atlantshafsbandalagsríkjanna frá öndverðu. Fyrir okkur Íslendinga hefur þetta verið mjög mikilvægt, m.a. vegna legu lands okkar, eyju úti í miðju Norður-Atlantshafi. Varnarsamningur okkar við Bandaríkin sem hefur reynst svo vel er liður í þessu og rökrétt framhald þeirrar hugmyndafræði. Bandaríkin eru eins og menn vita öflugasta ríki heims, langöflugasta raunar. Það á bæði við um efnahags- og hernaðarsviðið.

Hernaðarmáttur allra ríkja Evrópu er fjarri því sem Bandaríkin ein búa yfir. Af þeim ástæðum eru það augljósir hagsmunir Evrópu að eiga sem mest og best hernaðarlegt samstarf við Bandaríkin og hið pólitíska samhengi er líka viðblasandi. Evrópa og Bandaríkin eru hornsteinar hinnar borgaralegu lýðræðislegu hugmyndar sem einkennir hin opnu samfélög heimsins, brjóstvörn frelsis og mannréttinda. Það er því alveg rétt sem lesa mátti út úr ræðu breska ráðherrans, að samvinna Bandaríkjanna og Evrópu er algerlega rökrétt, pólitískt rökrétt. Evrópusambandið getur þess vegna alls ekki orðið valkostur sem kemur í stað Bandaríkjanna í utanríkispólitísku samhengi, þvert á móti.

Það var ákaflega fróðlegt að heyra ráðherra úr bresku ríkisstjórninni, krataríkisstjórninni, víkja að þessu á fundi sem fjallaði um Evrópumál öðru fremur, ekki síst í ljósi þess að breska ríkisstjórnin hefur alveg frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar lagt áherslu á samvinnu Evrópu og Bandaríkjanna líkt og við. Enn fremur nú, sérstaklega í ljósi þess mikla og sérstaka sambands sem er á milli bresku ríkisstjórnarinnar undir forsæti jafnaðarmannsins Tonys Blairs og bandarískra yfirvalda. Tal manna hérlendis og erlendis um Evrópusambandið og Bandaríkin sem andstæður, eins og öfgakenndast mátti heyra af vörum varaformanns Samfylkingarinnar á sínum tíma, er þess vegna algerlega fráleitt í ljósi ábendinga breska ráðherrans og vonandi stuðlar umræðan að því að setja málið í nýtt ljós.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála að áherslur okkar í utanríkismálum hafa tekið breytingum eins og eðlilegt er í heimi sem tekur miklum breytingum. Þetta sjáum við m.a. á því þegar við skoðum útgjöld sem hafa verið til utanríkismála hjá okkur á síðustu árum. Mjög mikið hefur verið gert úr þeirri miklu útþenslu sem þar hefur átt sér stað og það er alveg rétt að það hefur orðið talsverð útþensla í þessum efnum. En hún hefur hins vegar ekki verið á þeim póstum sem menn hafa kannski látið í veðri vaka í umræðunni. Ég t.d. vek athygli á því að ef við skoðum almennan rekstur sendiráða hér á landi þá hefur hann hér um bil og nánast staðið í stað frá árinu 2002. Hins vegar höfum við verið að auka framlög okkar til tveggja, þriggja atriða í utanríkismálum sem bera uppi að langmestu leyti þessa útgjaldaaukningu. Í fyrsta lagi höfum við aukið mjög framlög okkar til þróunarmála og ef við skoðum þetta í samhengi þá blasir það við að frá árinu 2000 til 2005 hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunarinnar tvöfaldast. Þetta er skýrt merki um tiltekna áherslubreytingu og aukna áherslu okkar á þessum sviðum.

Þetta er fagnaðarefni. Þróunarsamvinna er nauðsynleg. Þó ber að gjalda varhuga við þessu sambandi því hún mun ekki leysa öll mál. Engu að síður þarf að horfa á þróunarmál í öðru samhengi og við höfum alltaf verið að vinna á þeim vettvangi. Við höfum verið þátttakendur í WTO-viðræðunum og við höfum á margan hátt verið leiðandi innan þessara samtaka og á þeim vettvangi. Við erum þar með að reyna að stuðla að því að auka heimsviðskiptin sem skipta langmestu máli fyrir þróunarríkin. Það hins vegar dugir ekki til eitt og sér. Við þurfum líka að leggja áherslu á betri stjórnunarhætti og við sjáum að í þeim ríkjum, til að mynda í Afríku, sem minnst hefur miðað í þessum efnum og jafnvel miðað aftur á bak þá er ástæðan ekki endilega sú að það hafi vantað þróunaraðstoð eða vantað það að ríki heimsins hafi reynt að koma til móts við þessi ríki. Þar er hins vegar vandinn oft og tíðum spilling, slæmir stjórnunarhættir, ofríki einræðisherra o.s.frv. sem er sjálfstætt vandamál sem erfitt er að taka á.

Í öðru lagi vil ég líka í þessu sambandi vekja athygli á því að við höfum mjög meðvitað verið að auka framlög okkar og þátttöku í íslenskri friðargæslu. Árið 2002 lögðum við til þeirra mála 135 millj. kr. en á næsta ári er áætlað að það verði 460 millj. kr. Þetta er gríðarlega mikil aukning og við erum með þessu að segja að við viljum, þó litlir séum, leggja áherslu á þetta atriði af því að það skiptir okkur miklu máli. Ég verð að segja það eins og er, virðulegi forseti, að það hefur þess vegna komið mér mjög mikið á óvart að heyra úr þessum ræðustóli frá ýmsum hv. þingmönnum mjög neikvæð viðhorf til þessarar breytingar. Við höfum sannarlega verið að auka framlög okkar til friðargæslunnar og við höfum gert það á margvíslegum vettvangi. Í því sambandi vil ég m.a. vekja athygli á því að í Afganistan sem umræðan hefur verið kannski mest fókuseruð á upp á síðkastið vinna núna 10 þúsund manns að friðargæslu á vegum NATO í umboði Sameinuðu þjóðanna og þessi friðargæsla er grundvölluð á ekki færri en þremur ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Í þessu umboði vinnum við. Og hvað erum við að gera þar? Við erum að reyna að stuðla að því að endurreisa borgaralegt þjóðfélag í Afganistan og við gerum það með þeim hætti að reyna að tryggja að fólk geti notað grundvallarsamgöngutæki, þ.e. flugvöll. Þetta eru menn síðan að setja í það ljós að sé óeðlilegt, að við séum í einhverju hernaðarbrölti, „að þrífa upp eftir Bandaríkin“, svo ég taki upp fleygt orðalag, þó að við séum fyrst og fremst þarna í friðarhlutverki að reyna að tryggja eðlilega starfsemi í ríki sem áður var rjúkandi rúst.

Vegna þess að það hefur orðið út undan í umræðunni upp á síðkastið vil ég í þessu sambandi einnig segja að Íslenska friðargæslan er núna að sinna mjög margvíslegum verkefnum. Ég vil nefna að í Pristina fer fram grasrótarverkefni með UNIFEM til að styrkja múslimskar konur í héraði til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Telja menn að það sé óskynsamlegt? Við erum líka að sinna í umboði Flugmálastjórnar öryggismálum flugvallarins í Pristina í umboði Sameinuðu þjóðanna. Lögreglufulltrúi vinnur í lögreglusveitum Evrópusambandsins í Bosníu. Fjórir Íslendingar eru í vopnahléseftirliti Norðmanna á Sri Lanka o.s.frv. Allt er þetta til þess að reyna að stuðla að friði og þess vegna er það mjög undarlegt finnst mér að þessi umræða skuli hafa átt sér stað þegar við erum meðvitað að auka framlög okkar til friðargæslumála. Við erum með þessum hætti að reyna að stuðla að betri heimi, að leggja okkar litla af mörkunum sem lítil þjóð en öflug þjóð. Því finnst mér mjög undarlegt hversu mjög menn hafa verið að setja þetta allt saman í neikvætt ljós.

Virðulegi forseti. Á þessum skamma tíma er erfitt að koma að mjög mörgum málum. En á einu vil ég þó aðeins vekja athygli. Það er að hér hefur það gerst að þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa talað, fyrstu ræðumenn stjórnarandstöðunnar, án þess að ræða Evrópusamhengið, Evrópumálin. Það er stundum sagt, virðulegi forseti, að þögnin geti líka sagt manni heilmikla sögu og ég held að hún sé að segja okkur heilmikla sögu í þessum efnum. Það eru auðvitað tíðindi upp á síðkastið í utanríkisumræðunni að það skuli gerast að fyrstu talsmenn þriggja stjórnarandstöðuflokka skuli ekki sjá ástæðu til þess að taka upp þetta mikilvæga mál. Ég geri ráð fyrir að aðrir muni gera það hér á eftir. Engu að síður undirstrikar þetta ákveðið pólitískt samhengi og af því að hér var verið að rifja upp þessa pólitísku sögu þá vil ég vekja athygli á því að þannig háttaði nú til á þeim árum sem við vorum að koma á Evrópska efnahagssvæðinu að tveir af þeim þremur stjórnmálaflokkum sem þá áttu sæti á Alþingi og runnu síðan inn í Samfylkinguna treystu sér hvorugur til þess að styðja, og ekki einu sinni að sitja hjá almennt, aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég mundi því, virðulegi forseti, ekki vera mjög mikið að hreykja mér hátt ef ég væri úr þessum hópi. (Gripið fram í.) En þetta er auðvitað ekki stóra málið. Ég skil vel að hv. þingmaður vilji ekki láta rifja upp söguna í þessum efnum. Ég skal bara viðurkenna það. En þetta er mjög athyglisvert allt ... (Gripið fram í.) Ástæðan er auðvitað sú að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæðið stendur alveg prýðilega. Það eru ekki nokkur vandræði með hann. Það sem við erum að sjá í þessum efnum er að aðgengi okkar sem lítillar fullvalda þjóðar sem stendur í lappirnar, aðgengi okkar að ákvarðanaferlinu innan Evrópska efnahagssvæðisins, er bara prýðilegt. Við höfum margs konar aðgengi og það er sannarlega að koma í ljós.

Virðulegi forseti. Hins vegar eru miklir umbrotatímar hjá Evrópusambandinu sjálfu og það hefur að mínu mati verið að þróast með ákaflega athyglisverðum hætti. Það er alls ekki lengur sú heildstæða eining sem menn hafa viljað vera láta. Ég skal vekja athygli á einu. Við getum m.a. vakið máls á Schengen-samstarfinu. Að því eigum við og Norðmenn aðild, sem þó erum ekki aðilar að Evrópusambandinu, en fjölmennar þjóðir á borð við Breta og Íra sem eru í Evrópusambandsinu starfa ekki á Schengen-vettvanginum. Tökum myntbandalagið. Þar standa fjölmennar þjóðir á borð við Breta, Svía og Dani fyrir utan. Aðrar fjölmennar þjóðir á borð við Þjóðverja og Frakka láta sig bara engu skipta hvaða reglur hafa verið samþykktar síðan, jafnvel þó það hafi verið gert að þeirra eigin frumkvæði, og einfaldlega vaða yfir þetta eins og þá lystir. Þeim er alveg sama um þessa reglur varðandi fjárlagaafganginn. Þær skipta þessar þjóðir ekki nokkru máli. Þær segja litlu þjóðunum að hlýða í þessum efnum en er nákvæmlega sama hvernig þær gera þetta sjálfar og hirða ekkert um þetta. Þessi þróun í Evrópusambandinu blasir við núna.

Evrópusambandið er ekki heildstæð eining heldur þróast í allar mögulegar áttir og enginn treystir sér í dag til að segja til um hvernig það muni líta út eftir eitt ár eða tvö ár, hvað þá enn lengur. Þetta blasir við. Nýja stjórnarskráin sem nú var verið að samþykkja á tilteknum vettvangi Evrópusambandsins á eftir að fara fyrir aðildarríkin 25. Eftir er að bera hana upp væntanlega í þjóðaratkvæði kannski í tíu, ellefu ríkjum og menn telja almennt að hún verði felld út um alla Evrópu. Menn hafa miklar efasemdir um að stjórnarskráin verði samþykkt í fjölmennum ríkjum eins og t.d. Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Frakklandi, Tékklandi og Póllandi. Hvar standa menn þá? Hvar standa menn t.d. þegar eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins, Frakkland, samþykkir ekki þessa stjórnarskrá? Hvar standa menn þegar það blasir nánast við að Bretar munu ekki samþykkja þessa stjórnarskrá?

Það er augljóst mál að Evrópusambandið er að þróast í allar mögulegar áttir og öllum er ljóst að mjög margt bendir til þess núna að til verði tvenns konar Evrópusamband, þ.e. Evrópusamband þar sem ríkjasamvinnan er náin og Evrópusamband þar sem hún er ekki jafnnáin. Það er augljóst að við þessar aðstæður daðra menn við margs konar hugmyndir. Sumir telja t.d. að hluti ríkjanna kjósi gjarnan að hverfa til upprunans þannig að þetta verði líkara gamla Kola- og stálbandalaginu. Auðvitað geta menn deilt endalaust um þetta.

En stóra málið hvað okkur áhrærir í þessum efnum að mínu mati er að við þessar aðstæður hlýtur staða samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði að verða margfalt sterkari þegar það liggur fyrir að Evrópusambandið er að þróast með þessum hætti út og suður. Hún er að hverfa þessi eina skýra lína sem menn hafa alltaf látið í veðri vaka að sé til, þ.e. þeir sem hafa talað fyrir því að við skilgreindum þarna einhver óljós samningsmarkmið og færum þarna inn eins og við værum að máta föt í kjólabúð eða fatabúð. Það gefur augaleið að þegar Evrópusambandið þróast með þessum hætti þá er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði, sem hefur reynst okkur gríðarlega vel, þar eru engin vandamál uppi, þar höfum við fullkominn aðgang að ákvarðanaferlinu — þegar allt þetta blasir við sjá menn í hendi sér að EES-samningurinn er mjög að styrkjast og ekkert bendir til neins annars en að hann muni halda áfram sinni góðu stöðu.

Virðulegi forseti. Það gengur mjög á tíma minn. Ég vildi aðeins koma inn á þetta mál vegna þess að mér fannst óþægilegt að utanríkisumræðan héldi áfram án þess að nein frekari viðbrögð kæmu við því sem hæstv. utanríkisráðherra vakti máls á, þ.e. þróun í Evrópusambandinu. Mér fannst nauðsynlegt að gera það úr því að aðrir hv. þingmenn höfðu ekki gert það, t.d. engir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna. Án þess að ég ætli að setja mig í þau spor þá vildi ég a.m.k. vekja máls á þessari umræðu sem ég held að þurfi að halda hér áfram.